8% nemenda féllu utan viðmiða

Skólar vinna eftir hæfniviðmiðum aðalnámskrár en lítill hluti af þeim …
Skólar vinna eftir hæfniviðmiðum aðalnámskrár en lítill hluti af þeim kemur fyrir í prófunum, segir Rósa. mbl.is/Golli

Fyrstu niðurstöður úr samræmdum könnunarprófum í 9. og 10. bekk árið 2017 voru birtar í gær og kom í ljós að yfir 8% nemenda í 9.bekk fengu hæfnieinkunnina D í íslensku, ensku og stærðfræði.

Að sögn Sigurgríms Skúlasonar, próffræðings hjá Menntamálastofnun, endurspeglar hæfnieinkunnin D afar litla færni nemenda. Hæfnieinkunnirnar frá A-C eru skilgreindar með ákveðnum viðmiðum hjá menntamálastofnun en hæfnieinkunnin D fellur utan viðmiða.

„Það að fá D þýðir að nemandinn nær ekki þeim viðmiðum sem aðalnámskráin setur,“ segir Rósa Ingvarsdóttir, formaður Kennarafélags Reykjavíkur, en hún situr einnig í samráðshóp Menntamálastofnunar um rafræn próf.

Fjölbreyttara skólasamfélag

Rósa telur líklegt að rekja megi skýringar á þessu til fjölbreyttara skólasamfélags en áður en hún segir tölurnar og fjölgun nemenda með of litla kunnáttu of háa.

„Að það séu tveir í hverjum bekk sem fá þessa einkunn og að þessi hópur fari stækkandi getur verið vegna þess að við erum komin með fjölbreytt skólasamfélag og erum enn að ná utan um það,“ segir Rósa en hún kennir einnig nemendum í 9. og 10. bekk.

Hún segir fjölda barna sem eru af erlendu bergi brotin augljóslega ekki hafa sömu íslensku kunnáttu og börn sem hafa alist hér upp hér á landi.

„Börnum sem eru af erlendu bergi brotin hefur fjölgað og hér er skóli án aðgreiningar, það gæti valdið því að margir ná ekki þessum viðmiðum. Það er ætlast til þess að allir nemendur fari í samræmd próf.“

Rósa bætir jafnframt við að þrátt fyrir að hópur barna fái undanþágur frá því að taka prófin sökum námsörðugleika, greiningar eða stuttrar búsetu hérlendis er stór hópur á jaðrinum sem tekur samt sem áður prófin. „Sumt á sér eðlilegar skýringar. Þeir sem eru með mestu greindarskerðinguna eða greiningar falla í undanþáguhópinn en svo er auðvitað hópurinn sem er á mörkunum. Það er allur gangur á því en foreldrar þurfa að sækja um undanþágu.“

Óróleiki meðal foreldra

Rósa segir að það þurfi að skilgreina samræmdu prófin betur en framvegis munu einungis nemendur í 9. bekk þreyta prófin. Samkvæmt nýlegri viðbót við reglugerð um innritun nemenda í framhaldsskóla geta framhaldsskólar nú sótt að eigin frumkvæði niðurstöður hvers nemanda.

„Það er mikill munur á því hvort þetta eigi að vera fyrir grunnskólann og nemendur til þess að taka stöðuna og bæta sig eða hvort þetta er aðgöngumiði í framhaldsskóla. Eftir að nemendur taka prófið í 9. bekk er liðið á annað ár þegar þeir sækja um framhaldsskóla,“ segir Rósa en hún vill opna á samtal milli kennarastéttarinnar og Menntamálastofnunar um samræmdu prófin og skilgreina hlutverk þeirra betur. „ Það er óróleiki í skólakerfinu, hjá nemendum og foreldrum, um hvað þessi próf þýða og hver tilgangurinn er. Það þarf að skýra það betur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert