Fara yfir allar ráðstafanir United Silicon

Kísilmálmsmiðja United Silicon verður ekki ræst aftur fyrr en lausn …
Kísilmálmsmiðja United Silicon verður ekki ræst aftur fyrr en lausn hefur fundist á lyktarvandanum. Umhverfisstofnun er nú með tvær stöðuskýrslur til skoðunar varðandi verksmiðjuna. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Umhverfisstofnun fer nú yfir þær tvær stöðuskýrslur sem stofnunin hefur fengið sendar frá norska ráðgjafafyrirtækinu Multikonsult varðandi kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík. Sigrún Ágústsdóttir, sviðstjóri hjá Umhverfisstofnun, segir sérfræðinga stofnunarinnar vera að fara yfir skýrslurnar í samstarfi við norska ráðgjafafyrirtækið Norconsult.

Sigrún gerir ráð fyrir að það muni taka daga frekar en vikur að ljúka við að fara yfir skýrslurnar, en segir stofnunina ekki munu tjá sig um þær fyrr en að vinnu lokinni. Hún staðfestir þó að í skýrslunum sé að finna tillögur varðandi prufukeyrslu á ljósbogaofni United Silicon. Ekkert liggi hins vegar fyrir um það hvort og þá hvenær slík tilraunaræsing verði heimiluð.

Ofn­inn hef­ur ekki verið í gangi frá því að eld­ur kom upp í kís­il­málm­verk­smiðjunni þriðju­dag­inn 18. apríl. Viku síðar sendi Um­hverf­is­stofn­un frá sér til­kynn­ingu um að stofn­un­in hafi stöðvað rekst­ur verk­smiðjunn­ar vegna ít­rekaðrar lykt­ar­meng­un­ar og að ofn­inn verði ekki ræst­ur aft­ur nema að gefnu leyfi og í sam­ráði við stofn­un­ina.

Vinnu við lagfæringar að ljúka

United Silicon gerði ekki at­huga­semd­ir við þá ákvörðun og hafa sér­fræðing­ar frá norska ráðgjafa­fyr­ir­tæk­inu Multikonsult und­an­farn­ar vik­ur aðstoðað fyr­ir­tækið við að draga úr meng­un­inni. Sér­fræðing­ar frá fram­leiðanda ljós­boga­ofns­ins hafa sömu­leiðis unnið að því að bæta stöðug­leika ofns­ins, enda er talið að lykt­in sem íbú­ar Reykja­nes­bæj­ar finna komi þegar ofn­inn er und­ir ákveðnu álagi eða þegar slokkn­ar á hon­um.

Haft var eftir Kristleifi Andrés­syni, stjórn­anda ör­ygg­is- og um­hverf­is­mála hjá United Silicon, í mbl.is í síðustu viku að sérfræðingar frá framleiðanda ofnsins séu búnir að vera að vinna að lagfæringum og breytingum á ofninum undanfarið. Fréttastofa RÚV hafði eftir Kristleifi nú í dag að þeirri vinnu væri að ljúka.

Sigrún segir sérfræðinga Umhverfisstofnunar munu fara yfir allar ráðstafanir fyrirtækisins í þessum efnum og nokkuð sé í að þeirri vinnu ljúki. Það kunni vel að taka einhverjar vikur. Hún útilokar þó ekki að tilraunaræsing verði heimiluð fyrir þann tíma, en segir það fara eftir því hvort skýrslurnar gefi ástæðu til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert