„Það skelfilegasta sem ég hef séð“

Ljósmynd/Styrmir Sigurðsson

„Þetta er það skelfilegasta sem ég hef séð,“ segir Styrmir Sigurðsson í samtali við mbl.is en hann gekk nýverið fram á utanvegaslóða í Grindaskörðum á Reykjanesi en slóðinn liggur meðfram veginum frá Krísuvíkurafleggjaranum til Bláfjalla og nær frá Dauðadölum, þverar Selvogsgötuna fyrir neðan skörðin og liggur síðan upp á Kristjánsdalahornið. 

Styrmir segir þetta það ljótasta sem hann hafi séð til þessa þegar komi að utanvegaslóðum sem þessum. Aðspurður segir hann að honum sýnist að fjórhjól hafi verið þarna á ferðinni. Þarna sé um að ræða viðkvæman mosagróður sem verði fyrir miklum og langvarandi skaða. Loka ætti slóðanum að hans mati sem hann segir vel hægt.

Ljósmynd/Styrmir Sigurðsson

„Fyrstu tvo kílómetrana er slóðinn í sandi en síðan fer gamanið að kárna því þá liggur hann inn á hraunið og inn í mosann og er farinn að víkkast út. Þetta eru dæmigerðar aðstæður þar sem einn slóði verður ófær og þá bætist við annar slóði sem verður líka ófær og síðan þriðji, fjórði og svo framvegis. Þetta verður þannig alltaf verra og verra.“

Slóðinn þverar Selvogsgötuna að sögn Styrmis sem fyrr segir sem hann segir skelfilega ljótt að sjá. „Fyrir utan að mér finnst að það ætti friða svona gamlar þjóðleiðir. Þetta er fyrir neðan Þríhnjúkagíginn. Ég veit ekki hvar hann endar en hugsanlega upp á Þríhnjúkagíg. Síðan er í ofanálag uppblástur að byrja þarna sem afleiðing af þessu.“

Ljósmynd/Styrmir Sigurðsson

„Þetta er vandamál hjá okkur þessir slóðar og bara umgengni ýmis konar. Við erum með mann í fullri vinnu allt sumarið við að fara yfir svæðið, halda því við, reyna að koma í veg fyrir utanvegaakstur og loka leiðum sem eru byrjaðar að myndast. En ég kannast ekki í svipinn við þennan slóða, segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur.

Slóðinn sem um er að ræða er að miklu leyti á landi Grindavíkurbæjar og þar af sá hluti sem lítur hvað verst út að sögn Styrmis. „Það gerist allt of oft að verið sé að eyðileggja með þessum hætti. Sem betur fer eru flestir löghlýðnir en það eru ýmsir sem fara út af sporinu hins vegar,“ segir Fannars. Hvetur hann fólk til þess að láta vita af slíku.

Ljósmynd/Styrmir Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert