Þorgerður Katrín: „Mikil vonbrigði“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegsráðherra, ræðir málin við Bjarna Benediktsson, forsætisráðherra.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegsráðherra, ræðir málin við Bjarna Benediktsson, forsætisráðherra. mbl.is/Eggert

„Þetta eru náttúrulega mikil vonbrigði, að þetta skuli fara svona. En um leið þá bind ég vonir við það að menn leysi úr þessu í sameiningu og að allt sé gert til að tryggja því fólki atvinnu, sem stendur nú frammi fyrir því að missa vinnuna.“

Þetta segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegsráðherra, í kjölfar tilkynningar HB Granda um að fyrirtækið muni segja upp 86 starfsmönnum þess á Akranesi um næstu mánaðamót.

Hún segir að umræddir starfsmenn hafi yfir að búa gríðarlega mikilli þekkingu og reynslu, ekki síst á sviði sjávarútvegs.

„Það eru því mikil verðmæti fólgin í að reyna að tryggja að starfskraftar þeirra verði nýttir. Miðað við hvernig Skaginn er að þróast þá sé ég fram á að þar geti verið sóknarfæri í ýmsum greinum og innan sjávarútvegsins líka. Sérstaklega ef menn þrýsta á Faxaflóahafnir um að halda áfram lagfæringum við höfnina,“ segir Þorgerður í samtali við mbl.is.

Hagræðing mikilvæg

„Þá sé ég ekki annað, þegar menn hafa yfir þessum mannauð að ráða, og þegar litið er til þess að menningarlegar rætur Skagans liggja í sjávarútvegi, en að það verði önnur fyrirtæki sem komi og sæki í þessi verðmæti sem þarna eru.“

Hagræðing í sjávarútvegi sé þó af hinu góða.

„Það er mikilvægt að hún eigi sér stað og að byggður sé upp sterkur sjávarútvegur. Við höfum náð að fjárfesta enn frekar í greininni en megum hins vegar ekki gleyma að höfða til samfélagslegrar ábyrgðar fyrirtækja, með tilliti til ákvæða laga um stjórn fiskveiða.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert