Ríkið lánveitandi um ófyrirséða framtíð

Frá Vaðlaheiðargöngum.
Frá Vaðlaheiðargöngum. Ljósmynd/Valgeir Bergmann

„Verkefnið er orðið áhættumeira en það var í upphafi og viðkvæmara fyrir breytingum á lykilforsendum,“ segir meðal annars í umsögn Ríkisábyrgðasjóðs vegna viðbótarláns til Vaðlaheiðarganga hf. sem send var til fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Þannig hafi stofnkostnaður vegna Vaðlaheiðarganga hækkað verulega frá upphaflegri áætlun vegna erfiðleika sem orðið hefðu við gangagröftinn og tafa vegna þess.

Hækkunin nemi um 44% miðað við verðlag árið 2011. „Þetta hefur óhjákvæmilega mikil áhrif á möguleika þess að göngin standi undir framkvæmdarkostnaði,“ segir enn fremur. Til þess að ljúka framkvæmdinni hafi Vaðlaheiðargögn hf. óskað eftir viðbótarláni upp á 4,7 milljarða króna frá ríkinu. Með vöxtum megi ætla að heildarlán ríkisins til félagsins verði komin í rúma 16,6 milljarða króna í árslok 2018 er til standi að opna göngin.

„Ólíklegt verður að teljast að unnt verði að endurfjármagna framkvæmdalán vegna Vaðlaheiðarganga á markaði án ríkisábyrgðir á þannig kjörum að göngin standi undir sér fjárhagslega og ríkissjóður fái lán sitt endurgreitt að fullu,“ segir áfram. Ríkisábyrgðasjóður telur líklegra að ríkissjóður verði áfram um ófyrirséða framtíð aðallánveitandi Vaðlaheiðarganga hf. Hugsanlega verði endurfjármögnun fær síðar en fátt bendi til þess í dag.

Fjármálaráðuneytið óskaði eftir tillögu Ríkisábyrgðasjóðs að lánakjörum sem sjóðurinn teldi eðlilegt að giltu um umbeðið viðbótarlán. Segir í umsögninni að úr því sem komið sé leggi Ríkisábyrgðasjóður til samþykkt lánsins með 5% vöxtum og óbreyttu 0,6% áhættugjaldi frá fyrri lánafyrirgreiðslum. Þannig ætti að vera hægt að klára göngin og þau farið að skila inn tekjum sem ljóst sé að séu hins vegar háðar greiðsluvilja ökumanna.

Ríkisábyrgðasjóður telur að með slíkum vöxtum ætti að vera nokkuð góðar líkur á að innheimt veggjald nái að greiða upp viðbótarlánið og meira til. Mesta óvissan sé hins vegar um það hversu mikið verði hægt að greiða inn á núverandi lán til Vaðlaheiðarganga ehf. sem upphaflega var gert ráð fyrir að myndi standa undir framkvæmdinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert