Aldraðir þurfa félagsskap og nánd

Anna Þrúður, fyrir miðju, svaraði spurningunni hvort breyttar áherslu í …
Anna Þrúður, fyrir miðju, svaraði spurningunni hvort breyttar áherslu í þjónustu hefðu skilað öldruðum betra lífi Ljósmynd/Eggert Jóhannesson

„Það hentar ekki öllum að vera heima. Fólk verður að hafa val sem það ræður við fjárhagslega, ef það vill ekki fara inn á hjúkrunarheimili en treystir sér ekki til að vera heima,“ segir Anna Þrúður Þorkelsdóttir, þjóðfræðingur og fyrrverandi formaður Rauða kross Íslands, sem hélt erindi á fundi um stöðu aldraðra sem fór fram í Iðnó á laugardag. Anna svaraði spurningunni hvort breyttar áherslu í þjónustu hefðu skilað öldruðum betra lífi. Anna, sem er áttræð í dag, starfaði í þrjátíu ár hjá öldrunarþjónustu Reykjavíkurborgar og vill meina að ýmislegt hafi breyst til hins verra síðustu ár, í þjónustu við aldraða.

„Það er margt fólk, trúlega meirihlutinn, sem er frískur og vel efnaður og hefur það gott. En það er hópur fólks sem er einmana, glímir við fátækt og heilsubrest og treystir á heimaþjónustu. Þar líður mörgum illa.“ Hún segir of mikla áherslu lagða á að fólki búi heima hjá sér, sama hverjar aðstæðurnar séu, og fái heimahjúkrun frá Heimaþjónustu Reykjavíkur.

„Störf í heimaþjónustu eru illa borguð og fólk vill sjaldnast stoppa í þeim. Margt af starfsfólkinu er erlendar, góðar konur, en tungumálið getur verið vandamál. Ég held samt að þær séu oft nærgætnari en þessar íslensku, sem gera þetta af algjörri neyð. Það hefur líklega aldrei verið eins erfitt að manna heimaþjónustuna,“ segir Anna. Að hennar mati er síður en svo nógu mikill félagskapur af starfsfólki heimaþjónustunnar fyrir aldraða einstæðinga.

Að mati Önnu Þrúðar verður fólk að hafa meira val …
Að mati Önnu Þrúðar verður fólk að hafa meira val sem það ræður við fjárhagslega. Ljósmynd/Eggert Jóhannesson

„Það fylgir því mikil einsemd þegar fólk býr eitt. Fólk fyllist kjarkleysi og vonleysi. Það er svo erfitt að vera skítblankur og geta ekki veitt sér neitt.“ Hún segir það skipta máli miklu máli fyrir fólk að upplifa nánd og hlýju, að einhver gefi sér tíma til að setjast hjá því og veita umhyggju og athygli.

Konur í sérstaklega erfiðri stöðu

Fólk hafði meira val hér áður fyrr, að sögn Önnu, þegar þjónustuíbúðir voru raunverulegur valkostur fyrir þennan hóp fólks.

„Það vantar eitthvert úrræði á milli þess að búa heima og fara á hjúkrunarheimili, sérstaklega fyrir konur. Þegar maður horfir á konur á mínum aldri, sem fengu ekki barnagæslu, og voru ekki mikið úti á vinnumarkaðnum, þær hafa ekki brjálæðislega mikil eftirlaun margar hverjar. Sjálf var ég lengi formaður Rauða kross Íslands í sjálfboðastarfi og vann hlutastörf.“

Anna segir úrræðin sem eru í boði núna ekki henta þessum konum vegna þess hvað þau eru dýr. „Fólki er vísað á öryggisíbúðir hjá Hrafnistu og víðar, en þar er leigan um 260 þúsund krónur á mánuði. Þegar þú færð innan við 300 þúsund krónur á mánuði, þá er það ansi erfitt.“

Þegar einstaklingur sækir um að komast á hjúkrunarheimili þarf hann að fara í gegnum færni- og heilsumat. En um er að ræða einstaklingsbundið mat á þörfum einstaklinga fyrir varanlega búsetu á hjúkrunar- og dvalarheimilum. „Þessi færni- og heilsumatshópur hefur svo ferkantaðar reglur. Ég veit að margir eiga mjög erfitt. Það bæði fær ekki mat og ef það fær mat þá er ekkert hjúkrunarheimili til að fara á,“ segir Anna og vísar þar til skorts á hjúkrunarrýmum fyrir aldraða. „Ég legg til að eitt af þessum stóru hótelum verði tekið undir hjúkrunarheimili. Hafa þetta almennilegt á viðráðanlegu verði,“ segir hún kímin að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert