Stuðningur við sjúkrahús stytti biðlista

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra.
Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra segir að vinna við að stytta biðlista í heilbrigðiskerfinu gangi ágætlega. Hann segir að fyrst og fremst sé unnið á biðlistum með fjármagni og stuðningi við sjúkrahúsin.

„Þegar við erum að tala um biðlista erum við auðvitað aðallega að tala um bið eftir aðgerðum sem eru, eins og það heitir, valkvæðar aðgerðir, þ.e. aðgerðir sem eru ekki bráðaaðgerðir heldur aðgerðir sem fólk bíður eftir, á borð við liðskiptaaðgerðir, augnaðgerðir o.s.frv. Þetta eru aðgerðir sem í flæði eða rekstri spítalanna mæta stundum afgangi ef mikill þrýstingur er á almenna þjónustu, neyðarþjónustu o.s.frv.,“ sagði ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.

Katrín Jakobsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, spurði ráðherra út í biðlista í heilbrigðiskerfinu. Hún sagði að einfaldasta leiðin til að stytta biðlistana væri að styðja við þau sjúkrahús sem gætu ráðist í þær aðgerðir þar sem langur biðlisti væri.

Katrín Jakobsdóttir, þingmaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, þingmaður VG. mbl.is/Kristinn Magnússon

Óttarr benti á að vinnan við að stytta biðlista hafi hafist fyrir rúmu ári fyrir atbeina Alþingis, þar sem þingið stóð fyrir því að setja viðbótarfjármagn, 840 milljónir á ári þrjú ár í röð, sérstaklega til að vinna á biðlistum.

„Við erum nú á öðru ári í því átaki og ég get svarað því til að það gengur ágætlega að vinna á þeim biðlistum, en nákvæma tölu eða stöðu á því hef ég því miður ekki hér á takteinum til að svara fyrir það í dag.

Stór hluti af því að vinna á biðlistunum er auðvitað stuðningur eða styrkur þeirra stofnana sem vinna í verkinu. Í ár horfum við sérstaklega á Landspítalann, Sjúkrahúsið á Akureyri og Sjúkrahúsið á Akranesi, Heilbrigðisstofnun Vesturlands. Við horfum einnig á möguleika á að nýta aðstöðu og jafnvel mannskap á öðrum heilbrigðisstofnunum með stuðningi Landspítalans ef þarf,“ sagði Óttarr.

Katrín fagnaði því að ráðherra lýsti því yfir að hann væri því sammála að það mikilvægasta til að stytta biðlista væri spurningin um fjármagn og að styrkja sjúkrahúsin. Sú aðgerð sem hefði skilað árangri væri að styrkja hið opinbera kerfi til að stytta biðlistana og stytta bið fólks eftir aðgerðum.

Óttarr tók undir orð Katrínar, en bætti við að hann hefði einnig falið fyrirtækjum sem sjá um augnaðgerðir, sem væru einkarekin fyrirtæki, að sjá almennt um augnaðgerðir í heilbrigðiskerfinu. Þau væru líka að taka hluta af þessu biðlistaátaki eins og hefði verið á síðasta ári.

Þá bætti Óttarr við, að hann hefði sett af stað vinnu í ráðuneytinu til að athuga hvort það þyrfti að endurskoða lög til að skýra betur hvað teljist vera sérhæfð sjúkrahúsþjónusta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert