Fær ekki bætur fyrir að senda sms á 80 km hraða

Dómstóllinn taldi sök konunnar vera mikla og að framferði hennar …
Dómstóllinn taldi sök konunnar vera mikla og að framferði hennar hefði orsakað tjónið sem hún varð fyrir. AFP

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í gær tryggingafélagið VÍS af bótakröfu konu, sem krafðist þess að fá slysabætur greiddar vegna umferðarslyss sem hún lenti í árið 2014.

Konan var á leið eftir Reykjanesbraut til fundar við vinkonur sínar að kvöldi til 4. október 2014. Þegar hún var í nágrenni Hafnafjarðar fór bíll hennar yfir á rangan vegarhelming með þeim afleiðingum að hann lenti framan á öðrum bíl.

Konan varð fyrir meiðslum við slysið og var flutt með sjúkrabifreið á slysadeild Landspítala.

Lögregla mætti á vettvang slyssins og tók niður framburði ökumannanna. Greindi konan þá frá því að hún hefði ekið bifreið sinni á um 80 km hraða. Hún hefði verið á leið að hitta vinkonur sínar og verið að senda smáskilaboð úr farsíma sínum og hefði af þeim ástæðum ekki fylgst nógu vel með veginum. Ökumaður hins bílsins sagðist hafa séð bíl konunnar fara yfir á rangan vegarhelming. Hann hefði þá hægt á sér og ekið eins langt út í kant og hann hefði komist. Hefði hann verið á 60 km hraða þegar bílnum var ekið á hann.

Konan var með tryggingar sínar hjá VÍS þegar slysið átti sér stað, en tryggingafélagið hafnaði bótakröfu hennar á grundvelli þess að hún hefði verið að senda sms-skilaboð undir stýri. Hefði hún sýnt af sér stórkostlegt gáleysi sem leiddi til þess að bótaskylda væri ekki fyrir hendi. Konan skaut málinu til úrskurðarnefndar í vátryggingarmála í febrúar 2015 og komst nefndin að þeirri niðurstöðu, að konan ætti rétt á bótum úr slysatryggingu ökumanns og eiganda bifreiðarinnar sem næmu 1/3 af tjóni hennar.

Taldi nefndin þó einnig að hún hefði sýnt af sér stórkostlegt gáleysi.

VÍS hafnaði niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar og fór með málið fyrir dómstól, en dómkvaddir matsmenn mátu árið 2016 varanlega örorku konunnar  8%. Stefndi konan þá tryggingafélaginu sem ákvað í kjölfar matsgerðarinnar að greiða konunni 1/3 bóta í samræmi við niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar. Konan höfðaði þá mál gegn VÍS og krafðist fullra bóta.

Í úrskurði dómstólsins þar sem VÍS er sýknað af kröfu konunnar um fullar skaðabætur segir að sök hennar hafi verið mikil þegar hún ákvað að senda smáskilaboð úr farsíma sínum á 80 km hraða og óumdeilt sé að framferði hennar hafi orsakaði tjónið.

mbl.is