Stóra myndin í ljósmyndum

Á köldum marsmorgni, heimilislaus maður í Harlem.
Á köldum marsmorgni, heimilislaus maður í Harlem. Ljósmynd/Otis Johnson.

Ljósmyndaneminn Kári Björn Þorleifsson vinnur að ljósmyndabók um fyrrverandi fangann Otis Johnson. Í sameiningu varpa þeir félagarnir ljósi á þá gífurlegu fordóma og ósanngjarna réttarkerfi sem viðgengst í Bandaríkjunum.

Kári Björn er að klára þriðja árið af fjórum í BFA námi í ljósmyndun í hinum virta Parsons School of Design í New York borg. Hann lærði fyrst til matreiðslumanns, en byrjaði að taka myndir af alvöru þegar hann fylgdi eiginkonu sinni Kolbrúnu Ýri Rolandsdóttur til Nýja-Sjálands, þar sem hún var skiptinemi.

„Ég sótti um atvinnuleyfi en það urðu mistök í umsókninni og ég fékk ekki leyfið og hafði því töluvert mikinn frítíma. Þá kom myndavélin sem við höfðum keypt okkur nokkru áður að mjög góðum notum,“ segir Kári Björn sem komst inn í skólann með fortíðartengdu verkefni sem var að mestu leyti tekið í Hólavallakirkjugarði í Reykjavík. „Það fjallaði um elítisma og fjarlægð frægra manna sem liggja í þessum kirkjugarði,“ útskýrir Kári Björn.

Vill segja sögur af fólki

„Þegar ég var í Kvennaskólanum var alltaf stefnan hjá mér að verða blaðamaður og ritstýrði ég m.a. skólablaðinu. Hér í New York er svo mikið af fólki að maður kemst ekki hjá því að fá áhuga á fólki og sögum þess og þannig hefur blandast saman áhugi minn á ljósmyndun og áhuginn á að segja sögur af fólki. Ég myndi segja að þetta væri heimildaljósmyndun í eins víðum skilningi og hægt er. Sannleiksgildi ljósmynda er ofarlega í öllu sem ég geri, að ljósmyndin geti aldrei verið hinn alheilagi sannleikur og að ljósmyndarinn varpi alltaf fram sinni hlið með vali á myndefni, búnaði og eftirvinnslu. Ég tek hluti úr umhverfinu hér í New York og varpa þeim fram eins og ég sé þá. Fréttaljósmyndun er hlutlausari og tengist við núið, en ég vil vinna með fortíðina, nútíðina og framtíðina, eins og í verkefninu mínu með Otis Johnson.“

„Ég tók valáfanga fyrir tveimur árum þar sem átti að fjalla um Rikers Island fangelsið, en kennarinn minn hafði sjálfur setið þar inni fyrir fíkniefnbrot fyrir allmörgum árum síðan,“ segir Kári Björn.

„Það eru 2,3 milljónir manna sem sitja á bakvið lás og slá, en það eina sem er rætt er um eru stífari refsingar og öruggari fangelsi, og í rauninni eyða fylkin litlum peningum í að hjálpa föngum að halda sig á beinu brautinni. Það er talið að um 40% þeirra í Harlem sem setið hafa inni muni enda aftur á bak við lás og slá innan þriggja ára. Það fannst mér áhugavert og hafði samband við stofnunina Exodus í Austur-Harlem, sem sérhæfir sig í að laga fyrrverandi fanga að samfélaginu, t.d. með kennslu í nútímatækni og samskiptahæfileikum við vinnuveitendur og eftirmeðferðaraðila.“

Þar hitti Kári Björn Otis Johnson sem sat í fangelsi í tæp 40 ár fyrir brot sem hann hefur aldrei játað á sig. Kári Björn hefur unnið með honum vídeó- og ljósmyndaverkefni um líf hans, og heldur einnig utan um söfnun fyrir Otis á söfnunarsíðunni gofundme.com.

Handtekinn út af útlitinu

„Nýlega voru einmitt 42 ár liðin frá því að Otis var handtekinn hér í Harlem, þann 5. maí 1975. Hann var grunaður um manndrápstilraun á tveimur lögreglumönnum, en sá glæpur var framinn í nokkurra gatna fjarlægð. Einhver hringdi í 911 og sagði að það væri maður í ljósum jakka í anddyrinu að selja eiturlyf, mögulega vopnaður. Tveir lögreglumenn mættu á staðinn, sáu manneskju í hvítum jakka flýja, þeir elta en maðurinn skýtur aðra lögguna í magann og rétt framhjá höfði hinnar. Hálftíma seinna er Otis staddur á þessu horni að ræða við foreldra um stofnun sjálfsvarnarskóla fyrir krakka í hverfinu, og var í æfingagalla og ljósum leðurjakka utanyfir. Hann var handtekinn bara vegna útlitsins; svartur maður í ljósum jakka. Hvorki lögmaðurinn sem honum var skipaður né saksóknarinn höfðu uppi á manneskjunni sem hringdi, og það var þaggað niður í unglingsstrák sem steig fram sem vitni með góða sönnun á því að Otis væri saklaus. Otis er með mikið af skjölunum úr málinu sínu og sönnunargögnin gegn honum eru bæði fá og léleg. Ég hef farið í gegnum þau nokkrum sinnum og í raun skipti engu máli hvað Otis hafði að segja. Hann átti aldrei séns.“

Bjó hjá munkum í 11 ár

„Otis sat inni í tæp 40 ár og hann kom að ýmsum góðgerðarmálum innan þeirra tólf fangelsa sem hann sat í. Hann stofnaði hugleiðslusamtök, jók á samskipti milli fanga og var ritari réttindafélags svartra (NAACP). Hann stofnaði sitt eigið góðgerðarfélag árið 1993 sem opnaði skýli fyrir heimilislausa í Queens 1996 og rak það úr fangelsinu þangað til að fangelsismálastjórinn skipaði honum að hætta starfseminni, en Otis vinnur nú hörðum höndum að því að enduropna það.

Otis er einstaklega góður maður og vill alltaf hjálpa öðrum. Þegar hann var 14 ára, var hann ítrekað að lenda í slagsmálum, því hann varði oft fórnarlömb eineltis og lenti gjarnan í slagsmálum við gerendur fyrir vikið. Þá sendi pabbi hans hann til Hong Kong til að búa með munkum og læra hugleiðslu og sjálfsvörn, en pabbi hans hafði verið á herstöð í Hong Kong í Kóreustríðinu. Þar bjó Otis í 11 ár. Hann hataði fyrsta árið, en um leið og hann skildi tilgang hugleiðslu og Kung Fu, varð hann fastur í þessum heimi. Hann vaknar á hverjum degi og byrjar á að fara út í garð að hugleiða og æfa.“

Er að opna skýli fyrir heimilislausa

„Söfnunin sem við erum með í gangi á gofundme.com var í upphafi fyrir stúdíóíbúð í eitt ár handa Otis, en mánuði eftir að við hófum söfnina fékk hann íbúð í skýli fyrir fyrrverandi fanga og því hefur peningurinn sem safnast, farið í að kaupa húsgögn handa honum og ísskáp sem hann hefur ekki átt í mörg ár. Við höfum líka keypt skrifstofubúnað því hann ætlar að reka góðgerðarsamtökin sín þaðan. Hann hefur mikinn áhuga á heimilislausa fólkinu í hverfinu sínu, Harlem, og stefnir að því að hjálpa því sem mest. Sérstaklega fólki sem er aldrað, með geðsjúkdóma eða að flýja ofbeldissambönd. Hann er að einbeita sér að því að opna skýlið núna og um leið er hann að vinna í að fá sínu eigin máli áfrýjað, en það skiptir hann minna máli en skýlið. Það segir rosalega mikið um hvernig manneskja hann er að það skipti hann minna máli að fá uppreisn æru en að hjálpa öðru fólki. Hann tekur alltaf aðra fram yfir sjálfan sig sem er bæði kostur og galli. Í erfiðum aðstæðum getur það orðið til þess að traðkað er á honum.

Gefandi og erfitt verkefni

„Verkefnið mitt um Otis er í raun þríþætt: það er mitt sjónarhorn á Otis og hans sögu, svo er dagbókin sem hann ritar, með hans eigin ljósmyndum, og þriðja hliðin er svo hvernig þessar tvær sögur tengjast stóru myndinni, bæði í sögulegu samhengi og nútíðinni, sem eru þessir gífurlegu fordómar og einstaklega ósanngjarna réttarkerfi sem viðgengst hérna í Bandaríkjunum.

Þetta er mjög gefandi verkefni, en það er oft mjög erfitt líka, sérstaklega þegar Otis fær bakslög í sinni baráttu. Reyndar trúi ég því að það sé svo með alla listræna sköpun að maður þurfi alltaf að taka sér frí inn á milli. Í fyrra fór ég t.d. til Íslands í nokkra mánuði. Það setur mann í annað umhverfi og maður nær að hugsa hreinna og beinna um þetta,“ segir Kári Björn sem hefur unnið að verkefninu núna í tvö ár, en lokaútkoman verður bók um Otis.

– Hvert stefnir þú svo að námi loknu?

„Það lítur í sannleika sagt ekki út fyrir að við verðum á Íslandi í framtíðinni. Mér finnst markaðurinn heima fyrir ljósmyndara ekki mjög stór. Hér í New York eru mjög mörg tækifæri og skólinn minn er beintengdur inn í stærsta og breiðasta ljósmyndabransann í Bandaríkjunum og mögulega heiminum. Við Kolbrún Ýrr ætlum alla vega að gefa því tvö ár og sjá hvað gerist.“

karibjorn.com www.gofundme.com/otis-johnsons-home-fund @karibjtho
Útsýnið úr glugganum í karateskóla í Bronx þar sem Otis …
Útsýnið úr glugganum í karateskóla í Bronx þar sem Otis kenndi um hríð. Ljósmynd/Otis Johnson.
Upphitunaræfingar i garðinum á köldum marsmorgni.
Upphitunaræfingar i garðinum á köldum marsmorgni. Ljósmynd/Kári Björn Þorleifsson
Otis notar tímann til að fara yfir málið sitt.
Otis notar tímann til að fara yfir málið sitt.
Mynd af manni sem reynir að komast hjá handtöku á …
Mynd af manni sem reynir að komast hjá handtöku á Manhattan. Ljósmynd/Otis Johnson.
Frá moskunni sem Otis sækir.
Frá moskunni sem Otis sækir.
Otis við störf fyrir NAACP í Green Haven State fangelsinu.
Otis við störf fyrir NAACP í Green Haven State fangelsinu.
Otis Johnson í hinu alræmda Sing Sing fangelsi.
Otis Johnson í hinu alræmda Sing Sing fangelsi.
Kári Björn Þorleifsson
Kári Björn Þorleifsson
Otis í lestinni til Harlem eftir fund með félagsráðgjafa.
Otis í lestinni til Harlem eftir fund með félagsráðgjafa.
Fyrsta og eina afmæliskortið sem Otis hefur fengið var frá …
Fyrsta og eina afmæliskortið sem Otis hefur fengið var frá vini hans árið 1978.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert