„Það er ekkert að frétta“

mbl.is/Ómar

„Staðan er óbreytt. Það er ekkert að frétta,“ segir Stefán Pét­urs­son, formaður Lands­sam­bands slökkviliðs- og sjúkra­flutn­inga­manna. Þeir krefjast þess að sjúkraflutningamenn í hlutastörfum sitji við sama borð og aðrir starsfsmenn ríkisins. Kjör og form á ráðning­um þeirra er ekki breytt þrátt fyr­ir bók­un þess efnis í kjara­samn­ingi frá des­em­ber 2015.

Á föstudaginn síðastliðinn var fundi milli samninganefndar ríkisins og Lands­sam­bands slökkviliðs- og sjúkra­flutn­inga­manna slitið fyrirvaralaust, að sögn Stefáns. Ekki hefur verið boðað til nýs fundar. Stefán bætir við að þeir hafi ekki fengið nein frekari svör frá ríkinu um að unnið væri að því að bæta samninga þessa hóps.  

Um miðjan des­em­ber 2015 und­ir­rituðu samn­inga­nefnd­ir fjár­mála- og efna­hags­ráðuneyt­is­ins og Lands­sam­bands slökkviliðs- og sjúkra­flutn­inga­manna sam­komu­lag um breyt­ing­ar á kjara­samn­ingi sjúkra­flutn­inga­manna í hluta­starfi. Í bók­un­inni er gert ráð fyr­ir að í júní 2016 lægi fyr­ir skýrsla um út­tekt á störf­um hlutastarf­andi sjúkra­flutn­inga­manna og umfangi og eðli sjúkra­flutn­inga. Síðar á ár­inu eða í des­em­ber 2016 átti að liggja fyr­ir áætl­un um breyt­ing­arn­ar og kostnaðarmat. Þær áttu að taka gildi 1. janú­ar 2017. Eng­ir samn­ing­ar liggja enn fyr­ir.  

Á föstudaginn næsta taka gildi fimm uppsagnir sjúkraflutningamanna af sjö á Heil­brigðis­stofn­un Norður­lands vestra á Blönduósi. Uppsagnarfrestur þeirra er 28 dagar. 

„Þetta er beinlínis hættulegt,“ segir Stefán um stöðuna sem blasir við í vikunni. Í þessu samhengi bendir hann á bílslys sem varð í gærkvöldi í Húnavatssýslu. „Þar var lögreglumaður sem ekki var á vakt fyrstur á staðinn. Á meðan hann situr með stórslasaðan einstakling í fanginu og veltir fyrir sér hvort sjúkraflutningamenn séu á vakt eða ekki,“ segir hann og bendir á hversu mikilvæg þessi þjónusta er sem sjúkraflutningamenn veita. 

Stefán segir að það kæmi honum ekki á óvart ef fleiri uppsagnir myndu bætast við. 

11. maí síðastliðinn sendu 23 hlutastarfandi sjúkraflutningamenn á Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) á Þórshöfn, Raufarhöfn, Húsavík, Dalvík, Siglufirði og Blönduósi frá sér ályktun þar sem skorað er á ríkið að ganga frá samningum.

„Við sjúkraflutningamenn teljum kjör og réttindi okkar ekki boðleg fyrir þá miklu skuldbindingu og ábyrgð sem felst í að standa bakvaktir og sinna útköllum, sem hafa aukist frá ári til árs meðal annars vegna fjölgunar ferðamanna,“ segir í ályktuninni.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert