„Ég sit með alla öskupokana á bakinu“

Ólafur á fundinum í dag.
Ólafur á fundinum í dag. mbl.is/Golli

Fundur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar með Ólafi Ólafssyni, kenndum við Samskip, stóð yfir í tæpa tvo klukkutíma, en honum lauk rétt fyrir klukkan 18. Ólaf­ur var stjórn­ar­formaður Eglu, stærsta ein­staka aðila í kaup­um S-hóps­ins svo­kallaða á tæp­um helm­ings­hlut í Búnaðarbankanum.

Þýski bankinn Hauck & Aufhäuser kom að kaupunum sem helmingseigandi í Eglu, en nefndarmenn bentu á að bankinn hefði aðeins verið eigandi í skamman tíma og það benti til að um málamyndagjörning hefði verið að ræða. Enda var þóknunin sem bankinn fékk í sinn hlut ekki í samræmi við hagnað annarra af viðskiptunum.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis.
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. mbl.is/Golli

Gögnin ekki ný af nálinni

Fundurinn hófst á stuttri framsögu Ólafs en svo fengu nefndarmenn að spyrja hann spurninga.

Fyrstur var Jón Steindór Valdimarsson, framsögumaður nefndarinnar, sem hafði orð á því að gögnin sem Ólafur hefði afhent nefndarmönnum væru ekki ný af nálinni, nema nokkur skjöl sem virtust hafa litla þýðingu. Jón Steindór sagðist hafa búist við því að gögn Ólafs myndu varpa nýju ljósi á málið. Það hefðu þau hinsvegar ekki gert.

Ólafur sagðist ekki hafa vitað að sum gagnanna hefðu birst áður en viðurkenndi að þau væru vissulega öll gömul, enda um gamalt mál að ræða.

Hann sagðist svo sannarlega vilja að öll gögn væru uppi á borðum og hann hefði lagt sitt af mörkum í þeim efnum með gagnabunkanum sem hann sendi nefndinni í gær. Ólafur lagði áherslu á það í máli sínu að það hefði ekki verið sett skilyrði fyrir því að erlendir aðilar kæmu að kaupum Búnaðarbankans, enda hefði það ekki verið ljóst fyrr en á síðari stigum ferlisins að það yrði raunin. Hann vildi greinilega að þetta atriði væri mjög skýrt.

Ólafur og Vilhjálmur.
Ólafur og Vilhjálmur. mbl.is/Golli

Vilhjálmi heitt í hamsi

Vilhjálmi Bjarnasyni var heitt í hamsi á fundinum, þurfti oftar en einu sinni að biðja hann um að hafa sig hægan.

„Hvers vegna ertu að setja upp þessa löngu fléttu með blekkingum? Hvers vegna komstu ekki hreint fram á þessum tíma og sagðist vera að kaupa þetta sjálfur?“ spurði Vilhjálmur Ólaf og vísaði til yfirlýsingar um aðkomu þýska bankans sem send var út af kaupendum árið 2003, um hve jákvætt og traustvekjandi það væri að fá erlenda fjárfesta inn í kaupin á Búnaðarbankanum.

Ólafur vildi meina að Vilhjálmur væri með ansi stórar yfirlýsingar og hæddist hálfpartinn að honum: „Ég ætla ekki að segja hversu góður eða slæmur Hauck & Aufhäuser er en hann hefur verið starfandi í meira en 200 ár á meðan allir íslenskir bankar hafa farið á hausinn.“

Ólafur Ólafsson.
Ólafur Ólafsson. mlb.is/Golli

Í fórnarlambsleik

Aðrir nefndarmenn voru rólegri, en þó ákveðnir við Ólaf og kröfðust svara við spurningum sínum, en hann var ekki alltaf skýr í svörum sínum að mati nefndarmanna. Birgitta Jónsdóttir talaði um að hann væri í fórnarlambsleik en hann vildi sjálfur ekki meina að hann væri fórnarlamb. Þá sagðist hann vera innilegur í máli sínu og að hann hefði komið á fund nefndarinnar til að byggja upp traust.

Aðspurður hvort hann teldi nauðsynlegt að gerð yrði allsherjarrannsókn á einkavæðingu bankanna svaraði Ólafur: „Ég sit með kaleikinn, ég sit með alla öskupokana á bakinu. Það væri eðlilegt að ég myndi óska eftir því að allt væri rannsakað til að koma pokum á aðra. en mitt innilega svar er að það er tilgangslaust. Þið eigið að hugsa um framtíðina, byggja upp betra land og tryggja að þetta gerist ekki aftur.“

Þegar Svandís Svavarsdóttir ýjaði að því að hann ætti kannski að taka ábyrgð á gjörðum sínum sagði Ólafur að hann teldi sig ekki hafa gert neitt rangt. Þegar Lilja Alfreðsdóttir bað hann að svara í einlægni hvort um blekkingu hefði verið að ræða í viðskiptunum sagðist Ólafur hafa verið einlægur í svörum sínum.

Nefndarmenn munu nú meta það hvort upplýsingarnar á fundinum hafi einhver áhrif á framvindu mála og hvaða ákvarðanir verði teknar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert