Styttist í að Ólafur mæti fyrir nefndina

Ólafur mætir á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar klukkan 15:15.
Ólafur mætir á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar klukkan 15:15. mbl.is/Árni Sæberg

Ólafur Ólafsson, kenndur við Samskip, mætir á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis klukkan 15:15, þar sem hann hyggst kynna nýjar upplýsingar varðandi aðkomu þýska bankans Hauck og Aufhauser á kaupum í 45,8 prósenta eignarhluta ríkisins í Búnaðarbanka Íslands árið 2003. Ólafur var stjórnarformaður Eglu, stærsta einstaka aðila í kaupum S-hópsins svokallaða á tæpum helmingshlut í bankanum. En rannsóknarnefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að stjórnvöld, fjölmiðlar og almenningur hefðu verið blekkt í aðdraganda og kjölfar sölunnar. Niðurstaða nefndarinnar var kynnt í skýrslu sem var var birt í lok mars á þessu ári. Fundurinn mun hefjast á 10 til 15 mínútna yfirlýsingu frá Ólafi en svo mun hann svara spurningum nefndarmanna. Fundurinn er opinn fjölmiðlum og mun mbl.is flytja fréttir beint af fundinum og greina ítarlega frá því sem þar fer fram.

 „Leynifélag“ enn til 

Þátttaka þýska bankans í kaupunum var í raun aldrei annað en yfirvarp, eða til málamynda. Ítarleg gögn sýndu fram á það með óyggjandi hætti að Hauck & Aufhäuser, Kaupþing hf. á Íslandi, Kaupthing Bank Luxembourg og hópur manna sem vann fyrir og í þágu Ólafs Ólafssonar fjárfestis notuðu leynilega samninga til að fela raunverulegt eignarhald þess hlutar sem Hauck & Aufhäuser átti í orði kveðnu.

Raunverulegur eigandi hlutarins var aflandsfélagið Welling & Partners, skráð á Tortóla á Bresku Jómfrúaeyjum. Með fjölda leynilegra samninga og millifærslum á fjármunum, meðal annars frá Kaupþingi hf. inn á bankareikning Welling & Partners hjá Hauck & Aufhäuser var þýska bankanum tryggt skaðleysi af viðskiptunum með hluti í Búnaðarbankanum.

Hlutabréfin, sem þýski bankinn keypti að nafninu til, voru síðar seld með milljarða króna hagnaði sem varð eftir á bankareikningi aflandsfélagsins Welling & Partners hjá Hauck & Aufhäuser. Hagnaðurinn var greiddur út snemma árs 2006. Samkvæmt upplýsingum rannsóknarnefndarinnar fékk aflandsfélagið Marine Choice Limited, sem var í eigu Ólafs Ólafssonar, rúmlega helming hagnaðarins. Tæpur helmingur fór hins vegar til félagsins Dekhill Advisors Ltd. en litar sem engar upplýsingar fundust um eignarhald þess félags. Þá vildi enginn þeirra sem nefndin spurði um félagið kannast við tilvist þess. En fyrir utan Ólaf voru bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir, oft kenndir við Bakkavör, spurðir út í félagið ásamt þeim Guðmundi Hjalta­syni, Hreiðari Má Sig­urðssyni, Sig­urði Ein­ars­syni, Stein­grími Kára­syni, Bjarka Diego, Magnúsi Guðmunds­syni og Krist­ínu Pét­urs­dótt­ur. 

Nú hefur komið í ljós að umrætt félag virðist enn vera til, ef marka má upplýsingar úr gögnum sem bæði Kjarninn og Rúv hafa undir höndum, og greindu frá í gær. Raunverulegir eigendur félagsins ættu að vera á skrá hjá Julius Bäer-bankanum í Sviss. Þrátt fyrir bankaleynd þar í landi er ekki útilokað að íslensk yfirvöld geti fengið upplýsingar um eignarhaldið.

Segist hafa ný gögn

Ólafur óskaði eftir því við stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að fá að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og upplýsingum er málið varða í byrjun apríl. Sú ákvörðun nefndarinnar að fá Ólaf á sinn fund byggist á því að hann hafi gefið út að hann búi yfir nýjum upplýsingum um málið. En áður hafði komið fram að hann kæmi ekki fyrir nefndina nema að nýjar upplýsingar kæmu fram.

Ólafur sagðist fyrr í vor ekki hafa getað haldið uppi vörnum þegar fjölmiðlaumfjöllun um niðurstöðu nefndarinnar stóð sem hæst. Honum fannst nauðsynlegt að gefa sér ráðrúm til að rýna í það sem kom fram í skýrslunni.

Í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér sagði hann meðal annars: “Það er ekki hlaupið að því að rifja upp tæplega fimmtán ára gamalt mál. Síðan skýrsla rannsóknarnefndarinnar kom út hef ég farið yfir öll aðgengileg gögn er tengjast málinu. Ég tel mikilvægt að kasta ljósi á þær nýju upplýsingar sem ég hafði ekki fengið aðgang að áður og niðurstöður eru dregnar af í rannsóknarskýrslunni.” 

Afhenti 100 blaðsíður af gögnum

Síðdegis í gær afhenti Ólafur nefndinni svo gögn, sem reyndust nokkur hundruð blaðsíður, sem hann hyggst kynna á fundinum í dag. Höfðu nefndarmenn því aðeins sólarhring til að kynna sér gögnin. Af hverju Ólafur lagði umrædd gögn ekki fram á fyrri stigum málsins er óljóst. Rannsóknarnefndin óskaði meðal annars eftir því á sínum tíma að Ólafur gæfi skýrslu, en hann varð ekki við því fyrr en úrskurðað hafði verið um það fyrir Hæstarétti að hann gæti ekki skorast undan skýrslutöku. Hann hefur gagnrýnt vinnubrögð nefndarinnar, meðal annars sagt að um pólitískt leikrit sé að ræða sem hann frábiðji sér að taka þátt í. Þá fullyrti Ólafur í framburði sínum að eftir því sem hann best vissi hafi allar þær upplýsingar sem íslenska ríkinu hafi verið kynntar, sem og fjölmiðlum, varðandi aðkomu Hauck & Aufhauser, hafi verið réttar og nákvæmar.

Það var í júní á síðasta ári sem Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu um að aðkoma þýska bankans skyldi rannsökuð af sérstakri rannsóknarnefnd sem myndi hafa víðtækar heimildir til að kalla eftir upplýsingum. Kjartan Bjarni Björg­vins­son, hér­aðs­dóm­ari við Hér­aðs­dóm Reykja­vík­ur, stýrði rannsókninni sem lauk snemma á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert