Dómurinn fordæmi fyrir framhaldið

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari.
Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Við erum bara að fara yfir niðurstöðu málsins og bera við þau mál sem við erum með til meðferðar auk þess að lesa í dóminn hvað varðar verklag,“ segir Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari í samtali við mbl.is vegna dóms Mannréttindadómstóls Evrópu frá því í morgun um að íslenska ríkið hafi brotið á Jóni Ásgeiri Jóhannessyni kaupsýslumanni.

Frétt mbl.is: Fordæmisgefandi fyrir fjölda mála

Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið gegn banni við endurtekinni refsimeðferð. Jón Ásgeir var fyrir fjórum árum dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir skattalagabrot í rekstri Baugs og fjárfestingafélagsins Gaums og til sektargreiðslu upp á tugi milljóna króna. Taldi hann sig þegar hafa hlotið refsingu vegna málsins og tók Mannréttindadómstóllinn undir það. Ólafur Þór sagði í samtali við mbl.is í nóvember á síðasta ári að tugir skattamála, meðal annars tengd skattaskjólum, hefðu tafist vegna máls Jóns Ásgeirs fyrir Mannréttindadómstólnum. Málum hefði í einhverjum tilfellum verið frestað af héraðsdómurum þar sem beðið væri eftir niðurstöðu í málinu. 

„Við vonumst síðan til þess að yfirfara þau mál sem eru til meðferðar með hliðsjón af þeirri vinnu. Þannig að horft verður að sjálfsögðu til niðurstöðu dómsins varðandi framhaldið,“ segir Ólafur Þór. „Ég er ekkert frá því að menn skoði framkvæmdina í stóru samhengi í þessum efnum og síðan er náttúrulega spurning hvað löggjafinn gerir í því sambandi til þess að taka af öll tvímæli. En framkvæmdin hefur auðvitað öll verið lögum samkvæmt. Þetta er bara atriði sem verður að fara mjög vel yfir og gæta að því að framkvæmdin verði þannig að hún uppfylli það sem fram kemur í dómi réttarins. Þetta er bara fordæmi inn í það sem menn síðan gera í framhaldinu.“

mbl.is