Fordæmisgefandi fyrir fjölda mála

Gestur Jónsson hæstaréttarlögmaður.
Gestur Jónsson hæstaréttarlögmaður. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þetta eru náttúrlega meiriháttar tíðindi. Þetta eru tíðindi um það að málsmeðferð, sem hefur verið stuðst við á Íslandi í refsingum í skattamálum, standist ekki mannréttindi,“ segir Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar kaupsýslumanns. Málið gæti að sögn Gests haft fordæmisgildi fyrir fjölda annarra mála hér á landi. Bæði varðandi mál sem þegar hefur verið dæmt í og eins mál sem enn eru til meðferðar í dómskerfinu.

Frétt mbl.is: Íslenska ríkið braut gegn Jóni Ásgeiri

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur komist að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hafi brotið á mannréttindum Jóns Ásgeirs með því að dæma hann í skilorðsbundið fangelsi fyrir rúmum fjórum árum fyrir skattalagabrot í rekstri Baugs og fjárfestingafélagsins Gaums. Dómstóllinn féllst á það að dómurinn bryti gegn banni við endurtekinni málsmeðferð. Voru honum dæmdar bætur ásamt Tryggva Jónssyni sem einnig hlaut sömu málsmeðferð hér á landi.

Spurður hvort dómur Mannréttindadómstólsins kalli á naflaskoðun hér á landi segir Gestur að hann telji að svo hljóti að vera. „Þetta er ákveðið umhugsunarefni í ljósi þess að árið 2010 kvað Héraðsdómur Reykjavíkur upp dóm sem var efnislega sá sami og hjá Mannréttindadómstólnum núna og snerist um brot á reglunni um bann við tvöfaldri refsimeðferð. Þeim dómi var snúið við í Hæstarétti sem leiddi til þess að málsmeðferðin hófst aftur og menn voru síðan dæmdir til refsingar í héraði og í Hæstarétti sem aftur varð síðan tilefni þessa máls.“

Hugsanlega hægt að leita í smiðju Svía

Héraðsdómur var að sögn Gests að túlka dóm frá Mannréttindadómstólnum frá árinu 2009. „Frá þeim tíma hefði maður haldið að menn hikuðu við það að halda áfram þessari málsmeðferð gagnvart fólki en það hefur ekki gerst á Íslandi. Öfugt við það sem gerst hefur í öðrum löndum sem eru aðilar að Mannréttindasáttmála Evrópu með sama hætti og Ísland. Það er búið að dæma hér allavega marga tugi manna og refsa með þeim hætti sem hlýtur að teljast andstætt sáttmálanum af sömu ástæðum.“

Gestur segir fjölmörg dæmi um mál sem bíði í kerfinu þar sem menn séu búnir að ganga í gegnum refsiferli sem hljóti núna að þurfa að skoða hvað eigi að gera við. „Ég geng reyndar út frá því að þeir hljóti að falla frá þeim málum sem eru ákærendur í þeim.“ Dómurinn nú gefi tilefni til þess að fólk í sömu stöðu og Jón Ásgeir geti farið fram á endurupptöku sinna mála. „Það er það sem gerðist til að mynda í Svíþjóð 2013. Þar kom sænski hæstirétturinn reyndar saman að eigin frumkvæði og dæmdi um það að sú refsimeðferð, sem var mjög sambærileg við það sem hefur verið hér, stæðist ekki kröfur Mannréttindasáttmálans.“

Fyrir vikið hafi þurft að taka upp nokkur þúsund mál þar í landi. „Þetta var mikil vinna og mikið verk sem kostaði þá að fara í gegnum þessa leiðréttingu og kannski höfum við einhverja fyrirmynd þar að því sem þarf að gera á Íslandi.“ Spurður hvort þetta hafi þá ekki verið ljóst lengi segir Gestur að niðurstaða Hæstaréttar hafi verið sú að þetta væri ekki ljóst. „Við höfum haldið þessu fram allan tímann. Mér finnst að þetta hafi mátt vera ljóst en ég ætla ekki að halda því fram að dómarar við Hæstarétt hafi staðið svona að málum af öðrum hvötum en þeim að þeir hafi einfaldlega verið þessu ósammála. Ég geng út frá því.

Hins vegar sé mjög dapurlegt hversu langan tíma hafi tekið að komast að niðurstöðu í þessum efnum en það væri nú bara hluti af tilverunni. Spurður hvort málið sé ekki ljóst núna segir Gestur: „Það er núna alveg ljóst.“ Spurður áfram hvort stætt sé á öðru en að fara núna ofan í saumana á þessum málum segir hann: „Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert