Rekstri síðustu innlánsdeildarinnar hætt

mbl.is/Sigurður Bogi

„Þetta er síðasta innlánsdeildin á landinu. Kaupfélögin ráku slíkar deildir um árabil og tilgangurinn var að afla rekstrarfjár og þjónusta viðskiptavini sína. En þetta fyrirkomulag þjónar ekki þeim tilgangi lengur. Hvorki að afla rekstrarfjár né sinna viðskiptavinum. Þetta er meira orðið að geymslustað fyrir peninga. Síðan spilar þarna inn í sú þróun sem hefur átt sér stað í fjármálaþjónustu. Við erum til dæmis ekki með neinn netbanka.“

Þetta segir Ingólfur Jóhannesson, forstöðumaður fjármála og innheimtu hjá Kaupfélagi Skagfirðinga, en innistæðueigendum hjá innlánsdeild KS hefur verið send tilkynning um að starfsemi innlánsdeildarinnar, sem rekin hefur verið um áratugaskeið, verði hætt samkvæmt ákvörðun stjórnar kaupfélagsins. Stefnt er að því að ljúka útgreiðslum fyrir lok júní.

Fram kemur í tilkynningunni að innlánsdeildin hafi ekki sama hlutverki að gegna og áður. Rekstur hennar hafi auk þess orðið óhagkvæmari með árunum. Þá ekki síst vegna aukins kostnaðar við að uppfylla kröfur Fjármálaeftirlitsins til eftirlitsskyldra aðila. Þrátt fyrir að rekstur innlánsdeildarinnar hafi ekki fallið undir lög um fjármálafyrirtæki heldur byggst á heimild í lögum um samvinnufélög hafi hún engu að síður fallið undir eftirlit FME.

Spurður hvort segja megi þannig að innlánsdeildin sé barn síns tíma segir Ingólfur mikið til í því. Hér áður fyrr lögðu bændur gjarnan inn vörur í kaupfélagið og tóku út vörur. Það sem eftir stóð gátu þeir síðan geymt í innlánsdeildinni. „Sumir voru bara með allt sitt í kaupfélaginu,“ segir Ingólfur. Þannig hafi verið um að ræða ákveðna hagræðingu á sínum tíma fyrir alla aðila sem hins vegar eigi ekki lengur við í heimi nútímafjármálastarfsemi.

Samkvæmt ársreikningi KS fyrir árið 2015 námu innlán í innlánsdeildinni rúmlega 1,8 milljörðum króna og tæplega 2,4 milljörðum hjá samstæðunni í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert