Þvingaði 17 ára stúlku til munnmaka

Framburði mannsins var hafnað fyrir dómi, en frásögn stúlkunnar þótti …
Framburði mannsins var hafnað fyrir dómi, en frásögn stúlkunnar þótti trúverðug. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Hæstiréttur dæmdi í dag karlmann á fertugsaldri í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir að þvinga stúlku undir lögaldri til þess að hafa við sig munnmök og hafa í hótunum við hana. Hæstiréttur þyngdi þar með dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í nóvember á síðasta ári.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að maðurinn hafi hótað að raka af henni hárið ef hún veitti honum ekki munnmök. Þá hélt hann um höfuð hennar og ýtti getnaðarlim sínum að henni. Stúlkan var 17 ára þegar atvikið átti sér stað í samkvæmi árið 2014. Með brotinu rauf maðurinn skilorð og var það til refsiþyngingar. Þá er honum einnig gert að greiða stúlkunni eina milljón króna í miskabætur.

Fram kemur í dóminum að Barnavernd Reykjavíkur hafi óskað eftir lögreglurannsókn á meintu kynferðisbroti gagnvart stúlkunni í desember árið 2014 en hún hafði verið í umsjá Barnaverndar frá fæðingu og í varanlegu fóstri frá fimm mánaða aldri. Í dóminum segir: „Undanfarin ár hefði mikið verið unnið með stúlkunni vegna áhættuhegðunar sem hún hefði sýnt af sér í tengslum við vímuefnaneyslu og félagsskap sem hún sækti í. Hún hefði verið vistuð á meðferðarheimili um eins og hálfs árs skeið. Þá væri vitað til þess að hún hefði verið í félagsskap eldri manna, sem eigi langan feril vegna vímuefnaneyslu og afbrota. Starfsmaður Barnaverndar hefði staðfestar upplýsingar um að stúlkan hefði orðið fyrir nauðgun af hálfu ákærða um miðjan septembermánuð þetta ár.“

Baðst afsökunar á Facebook

Stúlkan lýsti málavöxtu þannig að hún hefði umrætt kvöld verið að aka bílaleigubifreið ásamt vinum sínum þegar ákærði hefði hringt í hana og krafist þess að hún skilaði bílnum. Hún fór með bifreiðina þangað sem ákærði var staddur og skilaði honum bíllyklunum. Þau fóru saman inn í herbergi en þegar þau komu fram voru vinir hennar komnir inn og réðst ákærði á einn þeirra. Í kjölfarið sótti hann rakvél, hélt henni upp að hári stúlkunnar og hótaði að raka það af henni. Hann spurði af hverju hún væri ekki búin að sofa hjá honum, en hún sagðist vilja að þau væru bara vinir. Ákærði sagðist sætta sig við munnmök en þegar stúlkan neitaði því hótaði hann að raka af henni hárið gerði hún það ekki. Hann hélt síðan höfðinu á henni þannig hún gat ekki losað sig og þvingaði hana til munnmaka. Hann sneri henni síðan við og skipaði henni að taka niður um sig buxurnar og standa upp við vegg á meðan hann fróaði sér. Eftir að hafa lokið sér af sagði maðurinn að sér liði vel og faðmaði stúlkuna áður en hún yfirgaf baðherbergið, þar sem atvikið átti sér stað.

Stúlkan sagði manninn svo hafa beðið sig afsökunar á Facebook og með smáskilaboðum eftir að hann frétti að fólk vissi hvað hefði gerst.

Framburði ákærða var hafnað

Ákærði sagði hins vegar að stúlkan hefði sjálf átt frumkvæði að munnmökunum á baðherberginu og farið niður á hnén til að geta framkvæmt þau. Hann sagðist hafa verið hrifinn af stúlkunni og haldið að það væri gagnkvæmt. Þá sagði hann þau áður hafa átt kynferðisleg samskipti.

Framburður stúlkunnar þótti trúverðugur, enda var hann á einn veg um atriði sem skiptu máli. Þá fékk frásögn hennar stuðning í framburði vitna. Ákærði var hins vegar ekki samkvæmur sjálfum sér í lýsingum á atvikum og frásögn hans samrýmdist ekki frásögn vitna. Var frásögn stúlkunnar því höfð til grundvallar í málinu en framburði ákærða var hafnað. Í niðurstöðu dómsins segir: „Þykir sannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi þvingað brotaþola til kynferðismaka með því að beita hana ofbeldi og ólögmætri nauðung, eins og lýst er í ákæru.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert