Kýldi mann í andlitið

Héraðsdómur Suðurlands.
Héraðsdómur Suðurlands. mbl.is

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi karlmann í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás. Hinum dæmda var einnig gert að greiða fórnarlambinu 569.432 krónur í skaðabætur.

Lögreglustjórinn á Suðurlandi ákærði manninn í desember síðastliðnum fyrir að hafa veist að manni, slegið hann hnefahöggi í andlitið, með þeim afleiðingum að maðurinn hlaut nefbrot og bólgu undir hægra auga auk þess sem kvarnaðist úr þremur tönnum.

Ákærði hefur þrívegis á árunum 2012 til 2013 verið sektaður og sviptur ökurétti, fyrst fyrir akstur undir áhrifum áfengis, síðan fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og brot gegn fíkniefnalöggjöf og að síðustu fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna sviptur ökurétti. Síðast hlaut hann í október 2015, 60 daga fangelsi skilorðsbundið í tvö ár fyrir brot gegn grein almennra hegningarlaga og ávana- og fíkniefnalöggjöf.  

Með hliðsjón af áðurgreindum brotum þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 5 mánuði en fullnustu hennar skal frestað og fellur hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talinn útlagðan kostnað vegna læknisvottorðs 25.278 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans 275.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk ferðakostnaðar lögmannsins, 24.200 krónur. Þá greiði ákærði lögmanni brotaþola 200.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Dómurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert