Tíu teknir fyrir fíkniefnasmygl

Magn efnanna er sagt hlaupa á nokkrum kílóum.
Magn efnanna er sagt hlaupa á nokkrum kílóum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Tíu manns sitja nú í gæsluvarðhaldi hjá lögreglunni á Suðurnesjum vegna tíu fíkniefnasmyglmála sem upp hafa komið í lögregluumdæminu á síðustu tveimur mánuðum. Í öllum tilvikum var um að ræða smygl á sterkum fíkniefnum, m.a. kókaíni og amfetamíni eða MDMA. Fjallað er um málið í Fréttablaðinu í dag og er magn fíkniefnanna samanlagt sagt hlaupa á nokkrum kílóum.  

Í blaðinu kemur fram að átta karlar og tvær konur hafi verið handtekin vegna smyglsins. Sjö einstaklinganna eru sagðir vera frá Hollandi eða tengjast Hollandi með einhverjum hætti, til að mynda í gegnum fyrrverandi hollensku nýlenduna Súrínam. Tveir hinna handteknu eru þá sagðir vera frá Brasilíu og einn frá Bandaríkjunum.

Fólkið kom flugleiðina til landsins, hvert í sínu lagi, og var ýmist með efnin innvortis eða í farangri sínum. Hefur blaðið eftir Jóni Halldóri Sigurðssyni, hjá fíkniefnalögreglunni á Suðurnesjum, að verið sé að kanna hvort málin tengist með einhverjum hætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert