Trúnaðarupplýsingar voru aðgengilegar

Samkeppniseftirlitið birti á dögunum rafrænt skjal á vefsíðu sinni í tengslum við samruna Vodafone og 365 í trausti þess að trúnaðarupplýsingum hefði verið eytt úr því. Hins vegar kom í ljósi skömmu síðar að það hafði ekki verið gert með nægjanlega tryggilegum hætti.

Skjalið, samrunatilkynning, kom frá aðilum samrunans og var Samkeppniseftirlitinu tjáð að umræddum trúnaðarupplýsingum hefði verið eytt úr því. Birti stofnunin skjalið í trausti þess. Hins vegar reyndist mögulegt að kalla fram þær upplýsingar sem felldar höfðu verið á brott úr skjalinu með tilteknum rafrænum hætti að því er segir í fréttatilkynningu frá stofnuninni.

„Samkeppniseftirlitið greip þegar til aðgerða til að girða fyrir þennan möguleika með því að fjarlægja af heimasíðunni það skjal sem samrunaðilar kváðu án trúnaðarupplýsinga. Var þess í stað birt eintak þar sem ekki var unnt að nálgast umræddar upplýsingar,“ segir síðan áfram. Er því beint til þeirra sem nálgast hafa upplýsingarnar að eyða þeim og miðla ekki áfram.

„Þeim eindregnu tilmælum er beint til þeirra sem hafa gripið til ráðstafana til þess að nálgast hinar útfelldu upplýsingar að eyða viðkomandi upplýsingum og miðla þeim ekki. Minnt er á að það getur varðað við lög að miðla og dreifa upplýsingum sem leynt eiga að fara.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert