Vildu andlega veikan pilt í varðhald

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Þórður

Hæstiréttur hafnaði kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þess efnis að 17 ára hælisleitandi skuli sæta gæsluvarðhaldi. Hæstiréttur staðfesti þar með úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur.

Í greinagerð lögreglu kemur fram að 27. desember hafi pilturinn verið stöðvaður á Flugstöð Leifs Eiríkssonar, ásamt karlmanni og stúlku. Þau voru grunuð um að framvísa fölsuðum vegabréfum. Fólkinu var tilkynnt að þau væru handtekin grunuð um skjalafals.

Pilturinn gat ekki gefið upp fæðingardag í skýrslutöku en sagðist vera um 17 ára. Hann sagðist hafa keypt vegabréfið í gegnum smyglara en var ekki viss um hvað hafði verið greitt fyrir það, vegna þess að vinur hans hafði greitt fyrir það. Hann taldi vegabréfið hafa kostað um 1000 evrur eða dollara. Hann hafði verið á flótta í um eitt og hálft ár.

Vinur hans á Íslandi bókaði flugið

Aðspurður hver hafi greitt og bókað fyrir hann flugfarið sagði hann að það hafi verið vinur hans sem búi á Íslandi.

Segir í greinargerð lögreglu að síðan hann kom hingað til lands hafi pilturinn sýnt af sér ógnandi hegðun gagnvart starfsmönnum Útlendingastofnunar sem hafi haft aðkomu að hans málum. Auk þess hafi pilturinn sýnt af sér sjálfsskaðandi hegðun og hafi í fimm skipti verið færður á geðdeild Landspítalans vegna ástands síns. Hafi starfsfólk Útlendingastofnunar farið að hafa verulegar áhyggjur af hegðun hans og óttast hann.

Í ljósi framangreinds hafi sú ákvörðun verið tekin af lögreglu að pilturinn skyldi halda sig á dvalarstað sínum. Degi eftir að honum var tilkynnt það lét hann sig hverfa. Lögregla taldi því nauðsynlegt að hann sætti gæsluvarðhaldi.

Hefur sótt um alþjóðlega vernd hér á landi

Í niðurstöðu dómara kemur meðal annars fram að í kröfu lögreglustjórans kemur fram að ekki sé vitað um fæðingardag kærða. Í greinargerð lögreglu kemur fram að kærði segist vera um 17 ára gamall. Þar segir jafnframt að norsk stjórnvöld telji hann vera um 20 ára gamlan. Samkvæmt gögnum málsins getur norskur barnalæknir ekki útilokað að kærði sé yngri en 18 ára, en útilokar í sömu greinargerð að hann sé yngri en 16 ára.

Samkvæmt lögum um útlendinga er aðeins heimilt að úrskurða umsækjanda um alþjóðlega vernd, sem er yngri en 18 ára en eldri en 15 ára, í gæsluvarðhald þegar hann hefur sýnt af sér hegðun sem gefi til kynna að hann ógni allsherjarreglu, öryggi ríkisins eða almannahagsmunum. Fyrir liggur að kærði, sem ósannað er að sé orðinn 18 ára, hefur sótt um alþjóðlega vernd hér á landi.

Auk þess sem taka ber tillit til aldurs umsækjanda og þarfa hans hverju sinni, en fyrir liggur að kærði á við andleg veikindi að stríða. Lögreglustjóri hefur hvorki með gögnum eða á annan hátt sýnt fram á að slík úrræði komi ekki til greina í tilviki kærða. Kröfu um gæsluvarðhald er því hafnað.

Dómurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert