Vísað frá vegna ágalla á málatilbúnaði

Kærunefndin segir að í málunum sé það með öllu vanreifað …
Kærunefndin segir að í málunum sé það með öllu vanreifað hvernig um kynbundinn launamun geti verið að ræða konum í óhag. mbl.is/Eggert

Kærunefnd jafnréttismála hefur vísað frá tveimur kærum Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga annars vegar á hendur Landspítalanum og hins vegar á hendur Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins vegna vanreifunar. Málin snerust um mismun á launakjörum.

Í kærunni á hendur Landspítalanum segir, að félagið taldi að launamunur væri á störfum annars vegar hjúkrunardeildarstjóra hjá Landspítalanum og hins vegar yfirlækna hjá spítalanum, en taldi starfsmennina vinna sambærileg stjórnunarstörf og vera staðsetta á sama stað í stjórnskipulagi hjá spítalanum.

Í kærunni gegn heilsugæslunni, taldi félagið að mismunur væri í launakjörum milli annars vegar hjúkrunarfræðinga sem gegna starfi svæðisstjóra hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og hins vegar lækna sem gegna starfi svæðisstjóra hjá heilsugæslunni en einnig vegna launamunar á störfum fagstjóra hjúkrunar og fagstjóra lækninga hjá heilsugæslunni.

Það er niðurstaða kærunefndarinnar, að í báðum málunum hafi aðild Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga ekki verið í samræmi við áskilnað laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Tekið er fram í báðum málunum, að viðkomandi félagsmanna sé hvorki getið né upplýsinga um kjör hvers þeirra um sig, starfsaldur þeirra eða menntun.

Í málinu gegn Landspítalanum var ekki gerð viðhlítandi grein fyrir því hvernig bera mætti saman launatekjur félagsmanna, sem eru að hluta til karlar, við hóp lækna, sem eru að hluta til konur, auk þess sem menntunarkröfur hópanna hafi verið mjög ólíkar. 

Í málinu gegn heilsugæslunni, segir einnig að ekki hafi verið gerð viðhlítandi grein fyrir því hvernig bera mætti saman launatekjur félagsmanna við hóp lækna sem séu að hluta til konur auk þess sem menntunarkröfur hópanna hafi verið mjög ólíkar. 

Vegna þessara ágalla á málatilbúnaði var málinu vísað frá kærunefnd jafnréttismála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert