Beðin um að fara úr að ofan

Katrína Mogensen, söngkona Mammút.
Katrína Mogensen, söngkona Mammút. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrína Mogensen, söngkona Mammút, segir að umræða um kynjahlutföll og jafnrétti í tónlist hafi aukist mjög frá því að hljómsveitin tók til starfa fyrir fjórtán árum. Hún hafi sömuleiðis sjálf velt þessu meira fyrir sér með tímanum en hún hefur fengið bæði skrýtnar beiðnir og óumbeðin ráð.

„Maður sér hluti öðruvísi þegar maður lítur til baka. Ég var orðin svona tvítug þegar ég áttaði mig á að sumt hefði ekki verið alveg eðlilegt,“ segir hún í sambandi við viðhorf sem hún hafi mætt.

Hún hafi meðal annars áttað sig á þessu þegar hún hafi rætt við hljómsveitir sem voru eingöngu skipaðar strákum, „og þeir skilja ekkert hvað maður er að tala um. Maður hefur þurft að biðja oft um hluti og það er jafnvel verið að taka fram fyrir hendurnar á þér á sviði, inni í hljóðverum, hjá útgáfufyrirtækjum og í samningaviðræðum. Alls konar svona hlutir sem maður áttaði sig á eftir á“.

Með „rosa olnbolga“

Mammút er langlíf hljómsveit og meðal annars vegna þess að liðsmenn eru samstiga. „Við höfum alltaf verið þannig hljómsveit að við höfum aldrei hikað við að segja nei við hlutum eða láta fólk fara sem dregur úr eða truflar sköpunarferlið. Maður þarf að vera með rosa olnboga og er búinn að byggja upp brynju gagnvart ýmsu,“ segir Katrína, sem segist hafa þurft að vinna fyrir því að fá virðingu sem tónlistarmaður en vera ekki „bara stelpa í hljómsveit“.

„Maður er oft fljótur á sér að hvæsa, af því að maður hefur þurft þess. Þetta er karlaheimur frá A til Ö.“

Helga Vala Helgadóttir er umboðsmaður Mammút og er Katrína ánægð með að vinna með konu. „Það er öðruvísi. Auðvitað skiptir það máli að fá að vinna með konu inni í bransanum. Það er allt önnur dýnamík,“ segir hún.

Katrína hefur upplifað ýmislegt í gegnum tíðina og segir þetta karllægan heim. „Það hafa alveg einhverjir karlar beðið mann að fara úr að ofan á sviðinu eða það er verið að klípa í rassinn á manni eftir tónleika. Það er margt sem maður þurfti að brynja sig gagnvart. Maður gaf skít í þetta og fattaði ekki einu sinni strax að þetta væri ekki eðlilegt,“ segir Katrína sem segist líka hafa fengið margar óumbeðnar ráðleggingar eða heyrt staðhæfingar, oftar en ekki frá karlmönnum, um tónlistarbransann en sjálf telst hún reyndur tónlistarmaður þrátt fyrir að vera ekki orðin þrítug.

Katrína hefur eytt hálfri ævinni í sömu hljómsveit, sveitinni Mammút sem vann Músíktilraunir þegar hún var aðeins 14 ára gömul. Platan Kinder Versions er væntanleg frá Mammút í sumar en það verður fyrsta plata sveitarinnar í fjögur ár og sú fyrsta sem er á ensku. Fyrsta lagið af nýju plötunni er nýkomið út en „Breathe Into Me“ er kraftmikið popp, sem hefur alla burði til að vera sumarsmellur.

Sveitin hélt í Evróputúr fyrr í þessari viku og spilar þar á nokkrum stöðum í Bretlandi í tónleikaröð á vegum útgáfufyrirtækisins Bella Union. Aðrir viðkomustaðir í mánuðinum eru Amsterdam, Berlín og Búkarest. Í sumar taka síðan við útihátíðir víðs vegar um Evrópu og sveitin heldur síðan til Norður-Ameríku í haust og spilar í New York, Seattle og Toronto.

„Við verðum að spila mikið núna og ætlum að vera eins mikið úti og við getum. Og svo verða útgáfutónleikar vonandi hérna heima í haust,“ segir hún.

Hróarskelda í sumar

Mammút spilar á Hróarskeldu í sumar og er það í fyrsta sinn sem sveitin spilar á þeirri hátíð. „Það er alveg stór stund fyrir íslenskt band. Ég hef heldur aldrei farið sjálf þannig að þetta verður alveg frábært.“

Mammút fékk engar smá umsagnir eftir tónleika sína á Iceland Airwaves í fyrra. „Hjómsveitin hefur skyndilega þróast yfir í að vera á heimsmælikvarða og eiga möguleika á því að ná til meginstraumsins,“ skrifaði Kieron Tyler á www.theartsdesk.com. Hann tók þar með undir orð Davids Fricke frá Rolling Stone sem sagði að Mammút væri „loksins reiðubúin fyrir heimsbyggðina“.

Hvernig er að fá svona umsagnir og hefur það áhrif á ykkur?


„Þetta hefur mjög mikil áhrif og allir eru mjög spenntir á sama tíma og við vitum að þetta er verðskuldað. Við erum alveg tilbúin. Þetta er það sem við ætlum að gera.“

Vantar virðingu

Nýverið hefur verið nokkuð í umræðunni að listamenn fái ekki borgað fyrir vinnu sína. „Það er stórfurðulegt hvernig þetta er á Íslandi, bæði í myndlist og tónlist. Af hverju fá myndlistarmenn ekki borgað fyrir vinnu sína? Þú færð ekki einu sinni greitt fyrir að sýna í Listasafni Reykjavíkur. Þetta er bara óskiljanlegt.“

Úr hvaða hugsunarhætti sprettur þetta viðhorf?

„Það er bara engin virðing borin fyrir myndlist á Íslandi og enginn skilningur. Kannski er það af því að við eigum svo litla myndlistarsögu, hún er stutt og hrörleg. Í Evrópu er listasaga kennd í barnaskólum því þar er sagan svo mikil. Þá er virðingin í blóðinu á fólki en ekki þessi íslenski efi um mikilvægi listarinnar.“

Hún er að mörgu leyti ósátt við ýmsar auglýsingaherferðir sem nota sér listaheiminn, ekki síst tónlist, til að draga ferðamenn til landsins. Verið sé að auglýsa hvað fólk sé skapandi hér og gróskan mikil en á sama tíma standi listamenn uppi slyppir og snauðir. Hún notar orðið „sóðalegt“ yfir þetta.

Lítið pönk í Hörpu

Katrína er glöð yfir tilkomu Hörpu en finnst ekki allt eiga heima þar. „Hér er svolítið viðhorfið að allt eigi að vera í Hörpu, nýstofnað pönkband og Bo Hall. Harpa er frábær en það á ekki allt heima þar, það getur ekki allt vaxið þar. Það er ekkert pönk í því að spila í Kaldalóni. Það er samt búið að ýta öllu þar inn. En auðvitað spjarar grasrótin sig alltaf, hún sprettur upp annars staðar,“ segir hún en bendir á að það séu fáir tónleikastaðir en telur á sama tíma að margir tónlistartúristar komi hingað og ákveðið misræmi sé í því.

Sjálf hefur hún tekið þátt í grasrótarstarfi í myndlistinni og var með frá upphafi í uppbyggingu Algera Studio, sem hefur fundið sér heimili fjarri miðbænum, í iðnaðarhúsnæði í Árbænum. Langt er síðan Katrína hefur verið með stúdíó þar enda hefur hún verið lítið á landinu. „Mammút var reyndar að taka upp nýtt myndband þar,“ segir hún, þannig að Algera er samt aldrei langt undan.

Einnig hefur Katrína verið viðloðandi Ekkisens og er mjög hugfangin af þessu sýningarrými við Bergstaðastræti.

Myndlistarmaðurinn Katrína

Katrína stundaði nám við Listaháskóla Íslands á árinum 2011-2014 og er útskrifuð úr myndlistardeild skólans.

„Ég hef mest verið í svona gjörningatengdum innsetningum, vídeóum og skúlptúrgerð. Síðan hefur þetta blætt mikið inn í Mammút,“ segir hún og fellst á að útskýra nánar hvernig myndlistarbakgrunnur hennar hefur haft áhrif á tónlistina.

„Ég held þetta hafi blætt inn í performansinn, litina og inn í myndböndin. Ég held þetta hafi líka haft áhrif tónsmíðarnar; ákveðna sjónræna sýn á tónlist og hvernig dýnamíkin er í hverju lagi. Maður áttar sig á því eftir á hvernig þetta hefur haft áhrif á form laganna og textana líka.“

Er ekki líka allt útlit, hið sjónræna, orðið svo mikilvægt fyrir hljómsveitir?

„Ímyndin er næstum því orðinn stærri þáttur. Við höfum ekki gert mörg myndbönd og lengi voru þetta aðgreindir þættir. Ég trúði því svo lengi að tónlistin gæti bara talað fyrir sig sjálf. Svo kemst maður að því að það er bara alls ekki þannig,“ segir hún.

„Ég aðskildi tónlistina og myndlistina mjög lengi,“ segir hún þannig að tónlistamaðurinn Katrína og myndlistarmaðurinn Katrína voru hvor í sínu horni. „En í kringum árið 2013 fór þetta að fara mikið saman og þá opnast á eitthvað nýtt. Hvernig maður hugsar tónlist hefur áhrif á skúlptúrana og öfugt.“

Hún hefur samt þörf fyrir að rækta bæði myndlistarmanninn og tónlistarmanninn í sér.

„Ég hef mikla þörf fyrir bæði. Þegar ég er búin að vera lengi í plötugerð þá langar mig að fara í eitthvað sem maður getur snert, eitthvað áþreifanlegt. Og svo öfugt, þegar ég er búin að vera of mikið með hendurnar í einhverjum efnum langar mig að komast í tónlistina.“

Upptökur á væntanlegri plötu kláruðust 31. desember sl. enda var búið að ákveða að þetta mætti ekki dragast fram yfir áramótin. „Þetta var búið að dragast lengi. Ferlið frá því að við byrjuðum að semja fyrsta lagið og þangað til platan er tilbúin er rúmlega tvö ár.“

Hún segir mikið frelsi fylgja því að klára plötu. „Um leið og þetta gefur manni mikið þá tekur þetta líka mikið.“

Frá Bolungarvík til Hafnarfjarðar

Lögin á plötunni voru að stórum hluta tekin upp og samin í íbúðarhúsnæði í Bolungarvík en líka í sumarbústað í Höfnum á Reykjanesi og skrifstofuhúsnæði í Hafnarfirði en Mammút var ekki með fast æfingahúsnæði á þessum tíma.

Þegar lögin eru tilbúin þá fer textagerðin í gang. Katrína semur textana og segir það vera jafnstórt ferli, hún fari annan hring inn í lögin. Það var ákveðin áskorun að semja texta á ensku í fyrsta sinn. „Við erum mjög tilbúin til að fara út. Þetta var rétt ákvörðun, maður fann það alveg, við erum búin að gefa út þrjár plötur á íslensku. Svo sér maður bara til hvernig þetta kemur út,“ segir hún. Fyrsta lagið er að minnsta kosti mjög áheyrilegt og grípandi popplag en platan kemur út á Bastilludeginum, 14. júlí.

Samkomulagið er gott meðal liðsmanna Mammút. „Við erum öll mjög nánir vinir. Því eldri sem maður verður þeim mun betur sér maður hve mikils virði það er og hvað það er ómetanlegt að hafa alist upp saman í gegnum Mammút. Árekstrarnir okkar eru svo lítilvægir miðað við allt það góða.“

Góð í að búa til hluti úr engu

Hún segir samstarfið hafa orðið meira með tímanum. „Ása er líka menntaður myndlistarmaður og Alexandra er að klára grafíska hönnun. Þetta hefur meira og meira orðið líka svona „art collective“. Í þetta blandast fólk úr bæði Ekkisens og Algeru. Við erum með marga vini í kringum okkur. Við höfum líka gert allt sjálf, myndböndin og plötuumslög. Þannig höfum við getað gert allt sem við erum búin að gera. Við erum rosa góð í að búa til hluti úr engu. Við erum umkringd svo ótrúlega mörgu skapandi fólki,“ segir hún og játar það aðspurð að það veiti henni orku og það sé mikilvægt að „fá næringu, samtöl og örvun frá umhverfinu“.

Hún segist fá mestan innblástur frá daglegu lífi og persónulegum samskiptum við fólk. „Oft ástinni eins og heyrist í textunum mínum. Ég fjalla um fólkið í kringum mig. Ég leik mér með samhengið, hvort sem ég set það í stærra samhengi eða einhvern búning.“

Innblástur frá ástinni

Innblásturinn kemur bæði frá ástarsamböndum og vinasamböndum. „Ég held það sé mjög mikilvægt fyrir listamenn að upplifa ástarsambönd til þess að geta verið góður listamaður. Ég held það sé nauðsynlegt að hafa verið ástfanginn til þess að skapa. Það er einhver útópía sem myndast sem maður verður að koma frá sér.“

Hún segir að það sé mikill munur á því að skrifa á ensku og íslensku. Á ensku skrifi hún inn í ríka textahefð úr popp- og rokksögunni sem sé ekki til staðar á Íslandi þar sem hér hafi svo mikið verið skrifað á ensku.

„Mig hefur lengi langað að koma setningunni „ég elska þig“ inn í textana mína en það er bara ekki hægt á íslensku. En það er ekkert mál á ensku. Þú getur gargað það út heilt lag sem ég geri einmitt á þessari plötu. Það er bara allt önnur tilfinning í því. Það var frelsi í því að semja á ensku, maður er ekki eins berskjaldaður og getur verið bókstaflegri. Á íslensku er ég alltaf að búa til einhverjar dulur utan um textana mína, mér hefur alltaf þótt gaman að syngja á íslensku, að syngja undir rós.“

Hannaði búninga fyrir Hamlet í Hannover

Katrína lét til sín taka á nýju sviði listarinnar í Þýskalandi fyrr á þessu ári. Hún var búningahönnuður ásamt Sunnevu Ásu Weisshappel fyrir sýninguna Hamlet í leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar í Hannover.

Þær hafa oft unnið saman áður en þó ekki á þessum vettvangi. Saman gerðu þær plötuumslagið á síðustu plötu Mammút, Komdu til mín svarta systir. Enn fremur hafa þær sett upp myndlistarsýningar saman en þær kynntust í myndlistardeild LHÍ.

Hún segir það hafa verið ákveðið menningarsjokk að koma inn í leikhúsheiminn í Þýskalandi þar sem fjárráð hafi verið rúm, eftir að hafa unnið við listir á Íslandi. „Maður er vanur að nota það sem er í kringum mann og sjá gull í engu.“

Hún segir nýtnina vera skapandi hugsun en á hinn bóginn komi eitthvað annað út úr því þegar hægt sé „að velja fallegan rennilás á kjól í staðinn fyrir að tjasla honum saman með sikkrisnælum. Það opnuðust svo miklar dyr við að fá tækifæri til að velja falleg efni og fara lengra inn í efnisheiminn með hugmyndir“.

Vinna við plötuna kláraðist rétt fyrir áramótin og Katrína hélt út til Þýskalands 4. janúar. „Ég tékkaði mig út úr Mammút sem var lífsnauðsynlegt á þessum tíma og fór inn í leikhúsið og sökkti mér inn í efnisheiminn. Það bjargaði lífi mínu á þeim tímapunkti,“ segir Katrína sem gæti vel hugsað sér að vinna aftur í leikhúsi. „Það að hafa fengið fyrstu leikhúsupplifun sína í gegnum Þorleif var ævintýralegt. Ótrúlegustu hugmyndir urðu að veruleika og traustið og frelsið sem hann gefur listamönnum inn í verkin sín eru ómetanleg.“

Drifkrafturinn kemur úr maganum

Hvaðan færðu þennan drifkraft? Er það eitthvað sem býr innra með þér eða ertu búin að þroska þetta áfram?

„Ég veit það ekki, ég held þetta komi úr maganum á manni. Ég hef alltaf fengið einhverja sterka sýn, hugmynd sem mér finnst ég verða að framkvæma og hugsa hratt um hvernig maður fer að því. Hvort sem það er lag, plata eða mynd, ég bara ryð mér í gegnum þetta og framkvæmi til að gera það að veruleika. Og er eiginlega alltaf handviss um að það sé framkvæmanlegt,“ segir hún og útskýrir að hún einblíni ekki á ákveðna útkomu heldur leyfi hlutunum að vera eins og þeir vilji vera.

„Það er ekki hlutverk listamanna að greina sjálfa sig heldur verður maður að fylgja einhverri tilfinningu; annaðhvort kveikja hlutirnir rosa mikið í mér eða þeir gera það bara ekki neitt. Mér finnst líka gott að vera löt. Mér finnst það mjög mikilvægt í lífinu líka að gera ekki neitt,“ segir Katrína en miðað við dagskrána hjá henni er það tímabundið ástand. Mammút er tilbúin fyrir heiminn og vonandi er heimurinn tilbúinn fyrir Mammút.

Katrína Mogensen er í ítarlegu viðtali í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.

Katrína Mogensen, söngkona Mammút.
Katrína Mogensen, söngkona Mammút. mbl.is/Kristinn Magnússon
Stilla úr vídeóverki eftir Katrínu sem sýnt var í Gerðarsafni …
Stilla úr vídeóverki eftir Katrínu sem sýnt var í Gerðarsafni 2015.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert