Ofn United Silicon gangsettur

Kísilversksmiðja United Silicon í Helguvík.
Kísilversksmiðja United Silicon í Helguvík. mbl.is/Sigurður Bogi

Verið er að gangsetja ljósbogaofn kísilverksmiðju United Silicon hf. í Helguvík. Að sögn Kristleifs Andréssonar, stjórnanda öryggis- og umhverfismála hjá United Silicon, mun gangsetningin taka allt frá hálfri klukkustund til tveggja klukkustunda.

Ráðgjafafyrirtækið Multiconsult er á staðnum ásamt fulltrúum frá Umhverfisstofnum.

Átta mælistöðvar settar upp 

Settar hafa verið upp mælistöðvar á átta stöðum til að fylgjast með loftgæðum í kjölfar ræsingarinnar og sér norska loftrannsóknarstofnunin NILU um mælingarnar.

Mælistöðvarnar hafa verið settar upp bæði í verksmiðjunni og í kringum hana, auk þess sem einni slíkri hefur verið komið upp á heimili í Reykjanesbæ þar sem fólk hefur fundið lykt sem það segir koma frá verksmiðjunni.

„Nú krossleggjum við bara fingur og vonum að þetta virki allt saman,“ segir Kristleifur og bendir á að búið sé að laga um 30 atriði hjá verksmiðjunni. „Það er búið að gera gríðarlega margt á þessum mánuði.“

mbl.is