Vilborg „gífurlega glöð“

Vilborg Arna var í skýjunum í tvennum skilningi. Myndin er …
Vilborg Arna var í skýjunum í tvennum skilningi. Myndin er úr safni. Ljósmynd/Vilborg Arna

Vilborg Arna Gissurardóttir, sem varð í nótt sjöundi Íslendingurinn til að komast á topp Everest, er nú komin niður í fjórðu búðir fjallsins, sem eru í 8.000 metra hæð. Þar munu hún og sjerpinn Tenji hvílast eftir átök næturinnar. 

„Það gekk mjög vel að komast niður. Þau eru komin strax inn í tjald og eru að fara að leggja sig og halda svo áfram á morgun,“ segir Tómasz Þór Veruson, kærasti Vilborgar, í samtali við mbl.is. Hann hefur verið í sambandi við hana í gegnum gervihnattarsíma og talstöðvar. Þau séu sterk og í góðu formi, en ætli að hvíla sig fyrir göngu morgundagsins.

Vilborg komst á topp Everest klukkan 03:15 í nótt að íslenskum tíma. Þar var hún í 10-15 mínútur. Hún er fyrsta íslenska konan sem afrekar það að komast á tindinn. Tómasz segir að hún hafi verið í skýjunum. „Hún var gífurlega glöð í nótt. Ég hef bara aldrei heyrt hana svona rosalega glaða áður,“ segir Tómasz. 

Langt ferðalag eftir

Aðspurður segir hann að aðstæður í fjallinu hafi verið góðar. „Vindinn hefur lægt aðeins þannig að það hefur gengið mjög vel. Í raun og veru samkvæmt plani,“ segir hann.

Vilborg og Tenji voru komin í búðirnar um klukkan níu að íslenskum tíma og tók gangan niður um sex klukkustundir. 

Á morgun munu þau svo halda áfram í aðrar búðir fjallsins sem eru í 6.400 metra hæð. Þaðan fara þau niður í grunnbúðirnar sem eru í um 5.300 metra hæð. „Svo verður farið í það að pakka og koma sér niður,“ segir Tómasz og bætir við það það taki tvo til þrjá daga að komast á Lukla-flugvöllinn í Nepal þaðan sem flogið er til Katmandú. „Það er langt ferðalag eftir.“

Everest-fjall.
Everest-fjall. AFP

Mikil umferð á fjallinu

Spurður út í aðra fjallagarpa á svæðinu segir Tómasz að það sé mikil umferð á fjallinu. Hann hafi heyrt af því að 60 manna lið hafi lagt af stað upp í nótt og það gætu því hafa verið yfir 100 manns á fjallinu. Svo er næsta bylgja til að komast á toppinn aðfaranótt mánudags. 

„Miðað við veðurgluggann sem við höfum verið að greina núna í gær þá er þessu [tækifærinu til að komast á topp Everest] að fara að ljúka núna á þriðjudaginn,“ segir Tómasz. Hann bætir við að útlit sé fyrir að monsúntímabilið hefjist næsta föstudag. Þá verði mikil úrkoma yfir fjallinu með tilheyrandi snjókomu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert