Borgarráð samþykkti á fimmtudaginn tillögu umhverfis- og skipulags að auglýsa tillögu að deiliskipulagi Vogabyggðar 1 á Gelgjutanga.
Borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins bókaði að hann minnti enn og aftur á að með skipulagi á Gelgjutanga væri komið í veg fyrir að svokölluð innri leið Sundabrautar væri möguleg. Með því að skipuleggja byggð á öllum Gelgjutanga væri Reykjavíkurborg að auka kostnað við lagningu Sundabrautar.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata lögðu fram svohljóðandi bókun:

„Stefna borgarstjórnar eftir ítarlegt samráð við íbúa beggja vegna Elliðaárvogs er að Sundabraut skuli vera á ytri leið í göngum. Þetta var niðurstaða allra flokka eftir ítarlega skoðun árið 2008. Innri leiðin sem vísað er til í bókun minnihlutans var ekki hluti af aðalskipulagi Reykjavíkur, né heldur er hún í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins, og var sú afstaða einnig þverpólitísk.“