Breytti hraðbankanum í leikjatölvu

Guðrún Ólafsdóttir hafði gaman af að breyta hlutverki hraðbankans og …
Guðrún Ólafsdóttir hafði gaman af að breyta hlutverki hraðbankans og nú njóta starfsmenn bankans góðs af. Skjáskot/Landsbankinn

Það má svo sannarlega segja að tæknin leiki í höndum Guðrúnar Ólafsdóttur, kerfisstjóra á upplýsingatæknisviði Landsbankans. Hún dundaði sér við það í frítíma sínum eftir áramót að breyta gömlum hraðbanka í leikjatölvu.

„Ég hef haft gaman af tölvum og tölvubúnaði frá því ég man eftir mér,“ segir Guðrún sem hafði gaman af að rífa í sundur raftæki í æsku. Hana hafði lengi langað til að búa til leikjavél og þegar hún frétti af því að það væri verið að taka gamla hraðbanka í bankanum úr notkun um síðustu áramót greip hún tækifærið.

„Þetta var mjög skemmtilegt og það var ástæða þess að ég gerði þetta,“ útskýrir hún í spjalli á Facebook-síðu Landsbankans.

Skjárinn virkaði vel, en Guðrún þurfti að setja smátölvu inn í hraðbankann, sem gat ráðið við að spila tölvuleiki, og smíða sitt eigið rafmagnsborð. Í samtali við mbl.is segir Guðrún enga þörf á að vera tæknisnillingur til að breyta hlutverki hraðbankans. „Ég lærði rafeindavirkjun og vinn nú við að reka Linux-netþjóna, þannig að ég er með menntun og starfsreynslu á þeim sviðum sem þurfti til að gera þetta.“

Hún kveðst hafa séð hraðbanka spila Doom áður, en þá hafi það verið með mús. Sjálf þekki hún ekki til þess að hefðbundið hraðbankalyklaborð hafi áður verið nýtt með þessum hætti.

Breytir ritvél í prentara

Hraðbankinn getur spilað hvaða leiki sem er, en örtölvan sem er inni í honum ræður hins vegar ekki við stóra og mikla leiki. „Þetta eru nefnilega bara nokkrir takkar sem er hægt að spila á. Þannig að þetta er miðað við klassíska leiki á borð við Tetris sem hægt er að spila á gamla leikjatölvu,“ útskýrir hún.

Hraðbankinn hefur verið á kaffistofu starfsmanna í nokkrar vikur og býðst öllum að grípa í leik þar. „Það er oftar en ekki einhver í honum,“ segir Guðrún, „og við og við hefur myndast röð.“

Guðrún ætlar ekki að láta staðar numið við hraðbankann, þó að næsta verkefni hennar sé ekki gamall bankabúnaður.

„Ég er að breyta gamalli ritvél í USB-prentara, bara til þess að geta það,“ segir hún. „Í stað þess að ýta á „print“ og vera með eitthvert gamalt og leiðinlegt letur ætla ég að láta ritvélina sjá um þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert