Sagan af Sölku Sól sem varð að Sögu

Hjálmar faðir Sölku Sólar með nýja fjölskyldumeðliminn, Sögu sem áður …
Hjálmar faðir Sölku Sólar með nýja fjölskyldumeðliminn, Sögu sem áður hét Salka Sól. ljósmynd/Salka Sól

Foreldrar Sölku Sólar Eyfeld, söngkonu, bjuggust líklega ekki við því að eignast nokkurn tímann aðra Sölku Sól, en það gerðist á dögunum þegar þau tóku að sér munaðarlausan hvolp. Salka Sól deildi fallegri sögu af atvikinu á samfélagsmiðla í dag, en mbl.is sló á þráðinn til hennar til að heyra meira.

Skilinn eftir úti af fyrri eiganda

Salka var stödd í sumarbústað með hljómsveit sinni, Amabadama, fyrir nokkrum vikum þegar hún fékk ábendingu um auglýsingu á síðunni dýrahjálp.is um að hvolpur að nafni Salka Sól væri í leit að nýju heimili eftir að hafa verið skilinn eftir úti af fyrri eiganda. „Það voru krakkar sem fundu hana úti og gott fólk sem tók hana inn á heimili sitt og auglýsti,“ segir Salka.

Salka var ekki í þeim hugleiðingum sjálf að fá sér hund en vissi að foreldrar hennar höfðu velt því fyrir sér í einhvern tíma. „Ég ákvað að hringja í pabba og segja honum frá því að það væri lítill hvolpur sem héti Salka Sól sem vantaði nýtt heimili sem fyrst og pabbi tók svo ótrúlega vel í það,“ segir Salka, en í kjölfarið fóru þau feðgin og skoðuðu hvolpinn hjá fólkinu sem hafði tekið hann upp á arminn. „Þetta var bara instant love,“ segir Salka og hlær.

Salka Sól er hæstánægð með nýja fjölskyldumeðliminn.
Salka Sól er hæstánægð með nýja fjölskyldumeðliminn. mbl.is/Golli

Gekk ekki að vera með tvær Sölkur Sólir í fjölskyldunni

Föður Sölku Sólar, leikaranum Hjálmari Hjálmarssyni, leist strax vel á hundinn og var hrifningin gagnkvæm. „Hún varð þvílíkt skotin í pabba og svo var bara tekin ákvörðun um að fá hana inn á heimilið,“ segir Salka og voru þá komnar tvær Sölkur Sólir í fjölskylduna.

Í um viku hjá nýju eigendunum hélt hvolpurinn nafninu Salka Sól og svaraði því, enda verið skírð það af fyrri eiganda. „En það gekk ekki alveg að vera með tvær Sölkur Sólir í fjölskyldunni svo það var haldinn fundur um hvað hún ætti að heita,“ segir Salka. Fjölskyldan vildi finna nafn sem hljómaði eins og Salka því hvolpurinn þekkti það nafn. „Æskuvinkona mín og besta vinkona heitir Saga og svo er þetta bara svo falleg saga að hún fékk nafnið Saga,“ segir Salka.

„Þetta var skrifað í skýin“

Saga unir sér vel hjá fjölskyldunni, og að sögn Sölku eru allir í skýjunum með nýja fjölskyldumeðliminn. „Mamma er ekki mikil hundamanneskja en hún er orðin þvílík hundamamma,“ segir hún og hlær. Þá hefur Salka farið mikið til foreldra sinna og farið með Sögu í göngutúr. „Hún er bara yndisleg viðbót við fjölskylduna.“

Hvolpurinn er hálfur Border Collie og hálfur Schaefer. „Ég veit að ef pabbi hefði fengið sér hund þá hefði hann fengið sér einhvern veginn þannig hund svo þetta var skrifað í skýin,“ segir Salka. „Hún kom bara til okkar og átti bara að vera hjá okkur.“

mbl.is