Var allt í þvotti hjá ráðherra?

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ég velti fyrir mér til hvaða aðgerða ráðherra er að vísa,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. Hún velti fyrir sér ummælum fjármálaráðherra, sem sagði í fjölmiðlum í fyrradag að staðan í gjaldmiðilsmálum væri svo alvarleg að við yrðum að horfa á mjög róttækar lausnir.

„Er hann að tala fyrir fastgengisstefnu með myntráði eins og við þekkjum annars staðar frá? Er hann að tala fyrir inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evru eða upptöku einhvers annars gjaldmiðils? Hvaða róttæku lausnir á ráðherra við?“ spurði Katrín.

Hver er staða ríkisstjórnarsamstarfsins?

Hún benti einnig á að ráðherra hefði látið hafa eftir sér að núverandi fyrirkomulag gjaldmiðlamála sé ónýtt. „Hver er staða ríkisstjórnarsamstarfsins ef niðurstaða peningastefnunefndarinnar verður áframhaldandi flotgengi með verðbólgumarkmiði? Með einhverjum þjóðhagsvarúðartækjum eins og nú er? Mun þessi ríkisstjórn þá halda áfram? Er fjármálaráðherra sætt eftir að hafa látið þau orð falla að núverandi fyrirkomulag sé ónýtt?“

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra sagði að það væri rétt að hann og fleiri hefðu komið auga á að það er grafalvarlegt mál þegar gjaldmiðill breytir svo hratt um gengi, eins og verið hefur með íslensku krónuna undanfarin tvö ár.

„Það er vissulega hægt að grípa til ýmiss konar aðgerða. Við þekkjum hvað gert hefur verið, að Seðlabankinn hefur verið með uppkaup, en hann hefur lýst því yfir að hann ætli að draga úr inngripum. Við höfum afnumið höft á fjármagnsflæði þannig að nú geta íslensk fyrirtæki, einstaklingar og lífeyrissjóðir fjárfest erlendis og keypt gjaldeyri, keypt hlutabréf og annað,“ sagði Benedikt.

Benedikt Jóhannesson í evrubolnum.
Benedikt Jóhannesson í evrubolnum. Skjáskot/Ruv.is

Ráherra er að senda skilaboð

Katrín sagði ráðherra ekki geta komið upp í pontu og talað um það sem hefði verið gert. „Hann mætti í viðtal í fyrradag og sagði að nú þyrfti róttækar lausnir til þess að koma böndum á gjaldmiðilinn. Hann mætti líka í annað viðtal í evrubol, væntanlega ekki vegna þess að ekkert annað væri hreint heima hjá honum. Ráðherra er að senda ákveðin skilaboð,“ sagði Katrín.

„Væntanlega ætlar ráðherra ekki að sitja áfram í húsi sem hann er þegar búinn að lýsa yfir að sé að hruni komið.“

Benedikt sagði málið flókið en það væri ekkert leyndarmál að stefna Viðreisnar fyrir kosningar var að skoða myntráð. „Það er rétt að í myntráði felst að gengi gjaldmiðilsins, krónunnar, er tengt við erlendan gjaldmiðil og þar sé ég þá róttæku lausn sem ég hef talað um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert