Fimm á slysadeild eftir árekstur

Fimm voru fluttir á slysadeild eftir áreksturinn.
Fimm voru fluttir á slysadeild eftir áreksturinn. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Fimm voru fluttir á slysadeild eftir harðan árekstur tveggja fólksbíla við Draugahlíðarbrekku á Suðurlandsvegi, skammt frá Litlu kaffistofunni, um hálfþrjúleytið í nótt.

Þrír sjúkrabílar voru sendir á staðinn frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu og tveir frá Selfossi, auk þess sem tveir dælubílar voru sendir á vettvang. Talið var að einn væri fastur í annarri bifreiðinni og að beita þyrfti klippum en ekki reyndist þörf á því.

Einhverjum bílanna var snúið við þegar í ljós kom að slysið var ekki eins alvarlegt og leit út í fyrstu, að sögn slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu.

Báðir bílarnir eru illa farnir eftir áreksturinn og kastaðist annar þeirra út af veginum.

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu slökkti skömmu síðar í blaðagámi í Langholtshverfinu. Gámurinn stóð nærri húsi en slökkviliðinu gekk vel að ráða niðurlögum eldsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert