Styttist í opnun hálendisvega

Hálendið snævi þakið fyrr í vikunni.
Hálendið snævi þakið fyrr í vikunni. mbl.is/RAX

„Ég var að loka rétt í þessu inn í Laugar, það er búið að vera ófært en nú hefur allur akstur verið bannaður,“ segir Ágúst Freyr Bjartmarsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar í Vík, en lokað hefur verið fyrir umferð um Sigöldu­leið (208) og Land­manna­leið/​Dóma­dals­leið inn í Land­manna­laug­ar.

Frétt mbl.is: Leiðin inn í Landmannalaugar lokuð

Í samtali við mbl.is segir Ágúst að útlit sé fyrir að hálendisvegir opnist margir hverjir töluvert á undan hefðbundnum tíma. Hann muni þó vita stöðuna betur eftir helgi.

„Á mánudaginn fer ég inn í [Landmanna]laugar og í framhaldi af því get ég metið hvenær hægt sé að fara að hreinsa vegina,“ segir hann og bendir á að jarðýta sé notuð til að taka í burtu mestu skaflana.

„Það er stutt í opnun en ég get ekki svarað fyrir það strax. Vonandi get ég það á mánudaginn.“

Klárlega vel á undan

Aðspurður segist hann áður hafa upplifað sams konar aðstæður, að vegir opni svo snemma.

„Þetta er ekkert algjört met, en þó klárlega í fyrra fallinu. Við erum klárlega vel á undan.“

Veturinn hefur þá verið óvenjusnjóléttur.

„Svo er vorið hlýtt, þannig að allt vinnur þetta saman.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert