Verður bannað að auglýsa Ópal?

Félag atvinnurekenda telur að ríkið eigi ekki að stunda rekstur …
Félag atvinnurekenda telur að ríkið eigi ekki að stunda rekstur sem einkaaðilar sinna ágætlega. mbl.is/Heiddi

Félag atvinnurekenda gagnrýnir harðlega afgreiðslu meirihluta allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis á frumvarpi um breytingar á smásölufyrirkomulagi áfengis. 

Þetta kemur fram á heimasíðu FA en félagið lýsir yfir miklum vonbrigðum með að ekki sé brugðist við athugasemdum og tillögum félagsins varðandi breytta innheimtu áfengisgjalds. Þá sé þrengt um of að auglýsingum á áfengi og léttöli í ljósvakamiðlum, ákvæði um sérverslanir séu óljós og misráðið að ÁTVR starfi áfram í samkeppni við einkaaðila.

Félagið telur allt of mikið þrengt að áfengisauglýsingum með breytingartillögum meirihlutans. Banna eigi áfengisauglýsingar í ljósvakamiðlum frá klukkan sjö að morgni til 21 að kvöldi.

„Á sama tíma og fram fara útsendingar frá t.d. erlendum íþróttaviðburðum, þar sem erlendar áfengistegundir eru auglýstar stanzlaust, er innlendum framleiðendum bannað að vekja athygli á sínum vörumerkjum. Með banni við auglýsingum léttöls er þeim meira að segja gert enn erfiðara fyrir en í dag að koma vörumerkjum sínum á framfæri! Þá vakna spurningar um hvort þá verði yfirhöfuð leyfilegt að auglýsa t.d. sælgæti með sama vörumerki og notað er á áfengum drykkjum,“ segir framkvæmdastjóri FA í bréfi til þingnefndarinnar.

Í breytingatillögu meirihluta allsherjar- og menntamálanefndar segir orðrétt: „Óheimilt er að auglýsa léttöl og aðra vöru með sama heiti og sambærileg áfeng vara innan þeirra marka sem kveðið er á um í 3. mgr.“

Sælgætisframleiðendur gætu því þurft að hugsa sinn gang en til að mynda er hægt að fá ópal og tópas í vökvaformi. Samkvæmt þessu yrði óheimilt að auglýsa nammið fyrr en eftir klukkan 21 á kvöldin í ljósvakamiðlum.

Félagið bendir á að núverandi lagaákvæði um innheimtu áfengisgjalds séu arfur einkaréttarfyrirkomulags í áfengisverslun og einboðið að þurfi að breyta þeim ef breyta eigi sölufyrirkomulaginu.

FA lýsir furðu á þeirri breytingartillögu að starfrækja ÁTVR áfram, samhliða sérverslunum með áfengi. Félagið ítrekar þá afstöðu sína að ríkið eigi almennt ekki að stunda rekstur sem einkaaðilar sinna ágætlega, síst af öllu sölu almennrar neysluvöru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert