Yngvi hættir sem rektor Lærða skólans

Yngvi hélt sína síðustu útskriftarræðu sem rektor MR í dag.
Yngvi hélt sína síðustu útskriftarræðu sem rektor MR í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Yngvi Pétursson, rektor Menntaskólans í Reykjavík, hélt í dag sína síðustu útskriftarræðu sem rektor skólans. Staðfesti hann þetta á skólaslitum menntaskólans. Í ræðunni vék hann að styttingu framhaldsskólanna en hann hefur verið afar andsnúinn henni. Í ávarpi sínu til nýstúdenta hvatti Yngvi nemendur til hamingjuleitar.

Yngvi tók við starfi sínu sem rektor árið 2001 en áður hafði hann sinnt störfum konrektors skólans. Hann hefur þó alls starfað við skólann í 45 ár en hann hóf störf sem kennari við Menntaskólann í Reykjavík árið 1972. Þrátt fyrir að láta nú af starfi sem rektor hyggst Yngvi hins vegar halda áfram kennslu.

Búinn að berjast eins og hann gat

„Ég er nú að verða háaldraður en það má segja að meginástæðan fyrir því að ég tók þessa ákvörðun hafi verið sú að mér finnst ég vera búinn að berjast eins og ég get og leggja alla mína krafta í þessi tvö mál sem ég hef barist fyrir,“ segir Yngvi í samtali við mbl.is, og á þar við baráttu fyrir bættum húsakosti skólans og gegn styttingunni.

Segir hann það miður að hafa ekki náð þessum málum í gegn en er vongóður um að í hans sæti komi kraftmeiri einstaklingur sem geti fylgt málunum eftir. „Ég hef fundið mikinn samhljóm hjá nemendum og kennurum skólans um þessi mál,“ segir hann.

Frá útskriftinni í dag.
Frá útskriftinni í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Baráttan við ríkisvaldið skólanum erfið

Í útskriftarræðu sinni í dag sagði Yngvi frá erfiðri baráttu skólans við yfirvöld um svigrúm til þess að tryggja nemendum áfram fjölbreytta og góða menntun og góðan undirbúning til náms á háskólastigi. Sagði hann svo frá þeim þrengingum sem skólinn hefur staðið frammi fyrir varðandi styttingu náms til stúdentsprófs úr fjórum árum í þrjú.

Nýnemar skólans hófu síðastliðið haust nám í samræmi við nýtt þriggja ára námskerfi. Yngvi sagði þetta afar vandasamt. „Þriggja ára kerfinu fylgir aukið álag vegna aukinnar tímasóknar og kemur skerðingin niður á breidd námsins. Það er vandséð hvernig nemendur geta samhliða því að stunda þetta krefjandi nám tekið áfram þátt í tómstundastarfi, íþróttastarfi eða stundað listnám,“ sagði Yngvi.

Forsvarsmenn skólans hafi lagt fram tillögu til að mæta þessum vanda. „Þrátt fyrir mjög góðar undirtektir borgaryfirvalda vildi ríkisvaldið ekki taka undir þessa lausnartillögu okkar og það hryggir mig óneitanlega að horfast í augu við þá staðreynd að þetta sé nú fullreynt,“ sagði Yngvi.

Hagræðingin getur reynst dýrkeypt

Yngvi segist nú binda vonir sínar við nýja valdhafa landsins. „Það er von mín að nýju valdhafarnir sem tóku við stjórnartaumum landsins í vetur geri sér betur grein fyrir mikilvægi menntunar unga fólksins okkar en forverar þeirra gerðu.“

Yngvi sagði að lokum að hagur nemenda þurfi að njóta forgangs í ákvörðunum um menntamál. Stjórnvöld þurfi að hætta að einblína einungis á hagræðingar í rekstri menntakerfisins. „Slíkur sparnaður mun nokkuð örugglega á endanum reynast okkur dýrkeyptur,“ sagði rektor.

Frábærir nemendur standa upp úr

En hvað stendur upp úr eftir árin 16 sem rektor? „Það sem stendur upp úr hjá mér eru nemendur. Frábærir nemendur,“ segir Yngvi. „Það hefur verið sérstaklega yndislegt að hafa þessa nemendur. Þeir eru svo efnilegir og hafa lagt svo mikið á sig til að ná sínum árangri.“

Hann mun þó ekki kveðja nemendurna fyrir fullt og allt enda mun hann áfram sinna kennslu eins og fram hefur komið. „Ég er bara að skipta um hæð,“ segir hann að lokum og hlær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert