Breytt stjórnmál kalla á viðbrögð

Sigmundur Davíð sagði að augljóst væri að stjórnvöld séu að …
Sigmundur Davíð sagði að augljóst væri að stjórnvöld séu að breytast í grundvallaratriðum. mbl.is/Ófeigur

Ljóst er að stjórnmálin eru að breytast í grundvallaratriðum. Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrr­ver­andi formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins og áður for­sæt­is­ráðherra, í ræðu sinni á framhaldsstofnfundi Framfarafélagsins sem fram fór í Rúgbrauðsgerðinni í dag. Boðaði Sigmundur stofnun félagsins fyrir skemmstu, en hlutverk þess á að vera að stuðla að framförum á öllum sviðum samfélagsins.

Sagði hann þrjú atriði einna helst valda þessum grundvallarbreytingum; breytingar á samfélögum sem valda minni tryggð við stjórnmálaflokka, þreyta almennings á kerfisræði og þróun í upplýsingatækni. „Áður fyrr héldu menn með sínum stjórnmálaflokki eins og fótboltaliði. Í dag hefur ungt fólk ekki sömu tryggð við stjórnmálahreyfingar og eldra fólk,“ sagði Sigmundur.

Stjórnmálamenn að gefa frá sér vald í síauknum mæli

Þá sagði hann að stjórnmálamenn hafi jafnt og þétt verið að gefa frá sér meira og meira vald. „Stjórnmálamenn fela kerfinu vald í síauknum mæli, þ.e. stjórnkerfinu sjálfu, ráðuneyti og stofnunum, sérfræðingum, nefndum og svo framvegis. Fjölmiðlar eru stundum hluti af valdakerfinu en öflugast af öllum kerfunum er að mínu mati alþjóðlega fjármálakerfið,“ sagði hann.

Með þessari þróun sagði hann að hugmyndir um að hið faglega ætti að ráða fremur en hið pólitíska væru ráðandi. „Pólitískar ákvarðanir er nánast orðið neikvætt hugtak, en þær eiga að vera teknar í krafti lýðræðis fyrir kjósendur,“ sagði hann.

Státa sig af því þegar málum lýkur 63-0

„Stjórnmálamenn eru margir hverjir smeykir við að hafa skoðun og að stjórna. Þeir vilja forðast að lenda í því að verða umdeildir,“ sagði hann og bætti við að stjórnmálamenn virtust margir hverjir vera orðnir hikandi við að segja eitthvað sem er til þess fallið að vekja umræðu.

„Menn státa sig af því þegar málum lýkur í þinginu með 63-0 eins og það er kallað þegar allir alþingismenn kjósa á sama hátt,“ sagði Sigmundur. Kallaði hann þess háttar stjórnmál samræðustjórnmál, en í raun væri um að ræða samsæri stjórnmálamanna gagnvart kjósendum. „Þeir eiga að beita sér fyrir ákveðinni nálgun og ef staðan er sú að allir koma saman um allt alltaf, hver er þá tilgangurinn með því að kjósa mismunandi flokka?“

Fjölmenni var á fyrsta fundi Framfarafélagsins.
Fjölmenni var á fyrsta fundi Framfarafélagsins. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Fólk hætt að sjá „fegurðina í ágreiningnum“

Gagnrýndi Sigmundur þessa nálgun og sagði stjórnmálamenn eiga að vera fulltrúa ólíkra sjónarmiða. „Hugmyndin er ekki sú að kjósendum muni takast að velja 63 snjöllustu einstaklinga landsins sem muni með samráði finna bestu leiðirnar og vera sammála. Þeir eru kosnir sem fulltrúar sjónarmiðanna og lausnanna sem þeir boðuðu.“

Bætti hann við að fólk væri hætt að sjá „fegurðina í ágreiningnum“. Ágreiningur væri forsenda þess að lýðræði gengi upp og í því lægi fegurðin. „Það gerir fólkinu í landinu kleift að stjórna, en einungis ef þeim er boðið upp á valkosti.“

„Ekkert eftir nema ímyndarstríðið“

Sigmundur hélt áfram að fjalla um þessa þróun og sagði að þau mál sem færu í gegn í þinginu væru unnin af fólki úr ráðuneytunum eða hjá sérfræðingum og væru svo útskýrð fyrir ráðherrum, sem fengju punkta um það hvers vegna málin væru góð og væri falið að flytja þau á þinginu.

„En þegar málefnalegur ágreiningur hverfur, hvað er þá eftir? Þá fer þetta að snúast um ímyndarstjórnmál og þá er ekkert eftir nema ímyndarstríðið,“ sagði hann og útskýrði að það væri þegar stjórnmálamenn skapa sér ímynd eða reyna að eyðileggja ímynd andstæðingsins. Vel væri hægt að takast á í þinginu en halda vináttu utan þingsalsins. „Þá hafa aðilar ólíka sýn, þora að verja sína sýn og virða fyrir vikið að andstæðingurinn sé að gera hið sama,“ sagði hann en bætti við að þegar stjórnmál færu að snúast um ímyndina væri líklegra að persónulegur ágreindur færi að myndast.

Sigmundur sagði allar stórar breytingar kalla á viðbrögð og þessar breytingar væru þar engin undantekning. „Ef við bregðumst ekki við munum við sjá öfgahreyfingar í báðar áttir auka vald sitt,“ sagði hann. Kjör Donalds Trump væri dæmi um þetta. „Menn voru tilbúnir að taka sénsinn því þeir vildu hrista upp í kerfinu.“

mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Áhrif tækniþróunar geti verið góð eða slæm

Hvað tækniþróun varðar benti Sigmundur á að í sögunni mætti alltaf sjá grundvallarbreytingar á samfélögum þegar þróun yrði á upplýsingatækni. Nú sé að eiga sér stað bylting sem felst í nýrri upplýsingatækni og áhrifin geti verið góð eða slæm. Benti hann á byltingu í arabaríkjum vegna Twitter og Facebook sem gerði það að verkum að hægt var að dreifa upplýsingum og skipuleggja valdarán þannig sem varð til þess að þjóðhöfðingjum var steypt af stóli. Þá benti hann aftur á Trump og sagði stuðningsmenn hans hafa getað nýtt sér þessa nýju tækni og það hafi hann sjálfur einnig getað gert með því að deila skilaboðum á Twitter.

Stjórnvöld hafi misst tök á dreifingu upplýsinga, og engin síun eigi  sér stað eins og til dæmis var til staðar í Austur-Þýskalandi á stríðsárunum. „Nú fer allt út og hugmyndir dreifast eins og eldur í sinu eða reyndar miklu hraðar en það,“ sagði hann. Þetta gæti brugðið til beggja vona. Annaðhvort haldi þetta frelsi í dreifingu upplýsinga áfram og það verði öflugt lýðræðistæki eða það fari í hina áttina, „þar sem tækninni fylgi ótrúlegar leiðir til ritskoðunar.“ Þá sagði Sigmundur að hættulegt gæti orðið að ritskoða upplýsingaflæðið. 

Sögulegt hnignunarskeið

Sigmundur sagðist telja líklegt að fjórflokkakerfið hér á landi myndi taka breytingum á næstu árum og áratugum og kerfið yrði aldrei samt. „Það hafa verið gerðar margar tilraunir til að brjóta upp þetta kerfi en þá hafa ekki verið fyrir hendi þær aðstæður sem eru nú til staðar,“ sagði hann. „Ég er sjálfur hefða- og varðveislusinni og hef talað fyrir því að hefðbundnu flokkarnir hafi mikilvægu hlutverki að gegna. En þeir gera það bara ef þeir geta aðlagað sig að breytingum og kalli tímans í stjórnmálum.“

Breytt samfélag kallaði á breytt starf stjórnmálaflokka. Fór hann yfir þróun á alheimsvísu í kjölfar alþjóðafjármálakrísunnar og sagði breytinguna hafa farið á skrið eftir hana. Eldiviðurinn í þróuninni væri að miklu leyti hnattvæðing sem hafi haft mikil áhrif á samfélög Vesturlanda.

„Evrópulönd eru að ganga í gegnum sögulegt hnignunarskeið. Allt mun þetta valda togstreitu,“ sagði hann en benti þó á að á flesta mælikvarða væri heimurinn að verða betri og lífskjör að batna. „En það má ekki sofna á verðinum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina