„Ég er uppveðraður“

Um 200 manns komu saman á fundinum, en Sigmundur segist …
Um 200 manns komu saman á fundinum, en Sigmundur segist ekki hafa búist við svo miklum fjölda. mbl.is/Ófeigur

„Ég er uppveðraður. Ég verð að viðurkenna það. Það er frábært að sjá hversu mikið af fólki er samankomið hér,“ segir Sigmundur Davíð Gunn­laugs­son, fyrr­ver­andi formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins og áður for­sæt­is­ráðherra, um framhaldsstofnfund Framfarafélagsins sem fram fór í dag. 

Frétt mbl.is: Breytingar á stjórnmálum kalli á viðbrögð

Um 200 manns komu saman á fundinum, en Sigmundur segist ekki hafa búist við svo miklum fjölda. „Það hvarflaði ekki að mér.“ 

„Þetta fer vel af stað þó ég segi sjálfur frá“

Sigmundur boðaði stofnun félagsins í síðustu viku en því er ætlað að stuðla að fram­förum á öll­um sviðum sam­fé­lags­ins. Sagði hann í ræðu sinni á fundinum í dag að tilgangur félagsins væri að stuðla að rökræðu, finna lausnir hvar sem þær væri að finna og tala við fólk sem þekkir vel til á sínu sviði.

Í samtali við mbl.is eftir fundinn sagðist Sigmundur ánægður að sjá að fólk væri komið á þeim forsendum sem hann hefði vonast til; til að fræðast, taka umræðu og vinna úr hugmyndum. „Þetta fer vel af stað þó ég segi sjálfur frá.“

Fjölmenni var á fyrsta fundi Framfarafélagsins.
Fjölmenni var á fyrsta fundi Framfarafélagsins. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Opin fyrir góðum hugmyndum sama hvaðan þær koma“

Eins og mbl.is fjallaði um í dag mætti fjöldi fólks á fundinn; fram­sókn­ar­menn, fólk úr öðrum stjórn­mála­flokk­um og fólk sem ekki hef­ur haft form­leg af­skipti af stjórn­mál­um. Er ætlunin þá að vera þarna með þverpólitískan samræðuvettvang? „Já, þó verða ákveðnar áherslur hjá þessu félagi til að mynda að verja fullveldi landsins og frjálsa pólitíska umræðu,“ segir Sigmundur.

„Við erum opin fyrir góðum hugmyndum sama hvaðan þær koma en það er ekki þar með sagt að allar hugmyndir séu góðar,“ segir Sigmundur en bætir við að tilgangurinn sé einmitt að ræða alls konar hugmyndir og komast að því í sameiningu hvað virkar best.

Hreyfing fyrir stjórnmálaflokkana

En hvernig er framhaldið hjá félaginu? Verða haldnir reglulegir fundir eins og þessi? „Já, ég á hins vegar ekki von á því að það verði mikið um fundahald í sumar en þann tíma munum við nýta fyrir sterka innkomu í haust og mæta svo öflug til leiks með röð öflugra fyrirlesta.“

Eins og Sigmundur hefur greint frá segist hann ekki með þessu vera að stofna nýjan stjórnmálaflokk. „Ég lít á þetta sem hreyfingu fyrir stjórnmálaflokkana. Ég vonast til þess að það sem hér verður til í þessari hugmyndaverksmiðju nýtist stjórnmálaflokkunum og fyrst og fremst vonast ég til þess að flokkurinn minn nýti sér þetta,“ segir hann að lokum.

Frétt mbl.is: Sig­mund­ur boðar stofn­un nýs fé­lags

mbl.is