Snúist um þörf Sigmundar fyrir völd

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á stofnfundi Framfarafélagsins í gær.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á stofnfundi Framfarafélagsins í gær. mbl.is/Ófeigur

Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, segir að borgarastyrjöld ríki innan Framsóknarflokksins. Þetta sagði hann í Silfrinu á RÚV í hádeginu þar sem meðal annars var rætt um nýtt Framfarafélags Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins og áður forsætisráðherra.

Velti Egill Helgason, stjórnandi þáttarins, því þar upp hvort stofnun félagsins væri fyrsta skrefið í klofningi flokksins. Eiríkur sagði að framtakið væri mjög áhugavert komandi frá Sigmundi, sem var helsti forystumaður flokksins.

Klókt ef Sigmundur ætlar sér aftur í forystu

„Þetta getur verið feykilega klókt hjá Sigmundi ef hann ætlar sér aftur í forystu,“ sagði Eiríkur og benti á að Sigmundur geti þá skorað Sigurð Inga Jóhannsson, núverandi formann flokksins, á hólm á flokksþingi Framsóknarflokksins í janúar. „Tapi hann er hann tilbúinn með tæki sem hægt er að breyta í flokk.“

Sigmundur hefur sjálfur greint frá því að með stofnun félagsins sé hann ekki að stofna nýjan stjórnmálaflokk. Eftir stofnfundinn í gær sagðist hann frekar líta á félagið sem hreyfingu fyrir stjórnmálaflokkana sem myndi nýtast sem nokkurs konar hugmyndaverksmiðja.

Framfarafélagið; að fara fram?

„Þetta tiltæki Sigmundar að stofna sinn eigin vettvang virðist litast af hans skoðunum að hann verði að leiða eitthvað,“ sagði Jón Trausti Reynisson, ritstjóri Stundarinnar, sem var einnig gestur í þættinum. „Manni sýnist þetta snúast um hans þörf til að hafa völd.“

Þá velti hann því upp hvort nafnið, Framfarafélagið, væri orðaleikur og vísaði til þess að fara fram, þ.e. bjóða fram í næstu kosningum.

„Hlutir sem minna á stjórnmál Donalds Trump“

Þá vísaði Jón Trausti í ræðu Sigmundar á fundinum í gær þar sem hann fjallaði um það að stjórnmál væru að breytast í grundvallaratriðum og slíkt kallaði á viðbrögð. „Hann stillir kerfinu upp sem vandamálinu og stillir fjölmiðlum upp sem hluta af kerfinu. Þetta eru hlutir sem minna á stjórnmál Donalds Trump, en svo varar hann sjálfur við öfgaöflum í samlíkingu við Trump,“ sagði hann og hélt áfram: „Hann nýtir sér sambærilegar aðferðir og Trump, en þó ekki eins róttækar.“

Sagði hann Sigmund þegar vera með vettvang til að koma fram sínum hugmyndum. Sá vettvangur væri Alþingi. „Síðast þegar ég vissi hafði hann ekki mætt í eina atkvæðagreiðslu á þinginu. Og af 19 fundum í utanríkismálanefnd þar sem hann er aðalmaður hefur hann mætt fimm sinnum og þar af fjórum sinnum of seint,“ sagði Jón Trausti. „Ef hann væri í skóla væri búið að reka hann.“

Uppgjörið fari fram í janúar

Björn Ingi Hrafnsson fjölmiðlamaður var einnig gestur í þættinum og sagði hann að Sigmundur væri með stofnun félagsins að búa til vettvang og uppgjörið færi fram á flokksþinginu í janúar. Sagðist hann þó myndu fagna því að stjórnmálaflokkar byggju til hugmyndir og langtímastefnumótun.

Þá var Heiða Kristín Helgadóttir, fyrrverandi þingmaður Bjartrar framtíðar og núverandi framkvæmdastjóri, einnig gestur í þættinum og sagði hún að ræða Sigmundar hefði verið þversagnakennd. „Hann sagði það vont ef niðurstaðan í þinginu væri 63-0 sem er skrítin hugmynd út frá öðru sem hann var að tala um. Mér finnst skrítið að við skulum líta svo á að ef þú fáir ekki allt sem þú baðst um tapir þú,“ sagði hún. „Pólitískt ertu alltaf að færa þig aðeins áfram og það er óheiðarlegt við kjósendur að halda því fram að þú getir alltaf fengið allt.“

mbl.is