Gjaldtaka borgarinnar ólögmæt?

Útsýni yfir Reykjavík frá Höfðatorgi.
Útsýni yfir Reykjavík frá Höfðatorgi. mbl.is/Ómar

Færa má sterk rök fyrir því að innheimta Reykjavíkurborgar á svokölluðum innviðagjöldum sé ólögmæt. Þetta kemur fram í minnisblaði sem lögmannsstofan LEX vann fyrir Samtök iðnaðarins og hefur nú verið opinberað.

Segir í minnisblaðinu að LEX telji að innviðagjaldið sé, að minnsta kosti að stórum hluta, almennt tekjuöflunartæki Reykjavíkurborgar til viðbótar við þá tekjustofna sem borginni standi nú þegar til boða á grundvelli laga.

Reynist gjaldtakan ólögmæt geti lóðarhafar þá krafist endurgreiðslu innviðagjaldsins á grundvelli laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.

„Þótt hluti innviðagjaldsins geti mögulega verið lögmætur, þ.e. í þeim tilvikum þar sem fjármögnuð eru verkefni sem hvorki heyra til lögbundinna verkefna sveitarfélagsins né til verkefna sem eru þegar fjármögnuð með mörkuðum tekjustofnum, virðist gjaldið vera innheimt í einu lagi og án þess að fjárhæðin sé sundurliðuð til tiltekinna verkefna,“ segir í niðurstöðum lögmannsstofunnar.

Þá segir að innviðagjaldið sé hvorki skattur né þjónustugjald í skilningi laga og þar sem gjaldtakan eigi sér ekki lagastoð megi færa nokkuð sterk rök að því að gjaldtakan sé ólögmæt.

Lagt á með einkaréttarlegum samningi

Fram kemur á vef SI að samtökin hafi óskað eftir því að LEX léti í té minnisblað um gjaldið, sem Reykjavíkurborg hefur nýlega hafið að innheimta af kaupendum lóða og lóðarhöfum vegna uppbyggingar á ákveðnum skipulagssvæðum.

„Gjaldið virðist einkum lagt á við tvenns konar aðstæður. Annars vegar þegar einkaaðilar kaupa lóðir í eigu Reykjavíkurborgar og hins vegar þegar lóðarhafa, sem þegar eiga lóðarleiguréttindi á tiltekinni lóð, óska eftir breytingum á deiliskipulagi lóðar sinnar (eða svæðisins í kringum hana),“ segir á vef SI.

Í báðum tilvikum sé gjaldið lagt á með einkaréttarlegum samningi milli Reykjavíkurborgar og viðkomandi kaupanda/lóðarhafa. SI sendu af þessu tilefni bréf til Reykjavíkurborgar 3. janúar síðastliðinn, þar sem lagðar voru fyrir spurningar í átta liðum, meðal annars um hvar finna mætti heimild borgarinnar til að leggja á umrædd innviðagjöld, í hvaða tilvikum þau væru lögð á, hvernig fjárhæð þeirra væri ákvörðuð og hvaða kostnaði þeim væri ætlað að mæta.

Borgarlögmaður svaraði bréfinu, fyrir hönd Reykjavíkurborgar, 9. febrúar 2017, að því er fram kemur í minnisblaði LEX.

„Í svari hans kom fram að borgin teldi sig ekki þurfa lagaheimild til töku innviðagjalda, þar sem um væri að ræða einkaréttarlegan samning við lóðarhafa um samstarf við uppbyggingu hverfa í borginni.“

Minnisblað LEX

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert