Ráðþrota, þreytt, sár og reið

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Steinunn Hannesdóttir steig fram í fyrirspurnatíma á ráðstefnu um veggjatítlur og myglusveppi í í morgun og spurði hver réttur kaupenda væri í kjölfar þess að hún og maðurinn hennar sitja uppi með einbýlishús sem kostaði 71 milljón króna sem þau hafa aldrei búið í. Ástæðan er sú að myglusveppur greindist þar eftir undirritun kaupsamnings.

Um er að ræða 225,1 fermetra einbýlishús með bílskúr sem var byggt árið 1967. Í söluyfirlitinu sagði: „Húsið er mikið endurnýjað, allar innréttingar, baðherbergi, gólfefni, rafmagn, skolp, allt gler og opnanleg fög, ofnar og vatnslagnir að mestu. Húsið var málað og steypuviðgert árið 2006. Þak málað 2013.“

Dómur féll í málinu í Héraðsdómi Reykjaness í febrúar síðastliðnum þess efnis að Steinunn og hennar maður þurfi að greiða seljanda eignarinnar tæpar 27 milljónir króna, eða eftirstöðvar afborgana af láninu sem þau tóku. Einnig þurfa þau að greiða tvær milljónir króna í lögfræðikostnað seljandans.

Fyrir utan það þurfa þau að halda áfram að greiða af lánum hússins eins og þau hafa gert undanfarin þrjú ár, á sama tíma og þau borga fyrir leigu á öðru húsnæði.

„Hver ber ábyrgðina? Sá sem seldi húsið, sá sem keypti það, sá sem bjó það til? Ég kem alls staðar að lokuðum dyrum,“ spurði Steinunn á ráðstefnunni en þar var fátt um svör. „Nú er maður orðinn ráðþrota, þreyttur, sár og reiður.“

Raki og mygla geta verið til mikilla vandræða í híbýlum …
Raki og mygla geta verið til mikilla vandræða í híbýlum fólks. mbl.is/Golli

„Svo byrjar boltinn að rúlla“

Við kaupin á einbýlishúsinu 30. júní 2014 var samið um að fimm milljónir króna yrðu greiddar við undirritun kaupsamnings, 10 milljónir króna yrðu greiddar 1. ágúst 2014, 28.270.000 krónur með yfirtöku láns við afhendingu, 25.100.000 krónur 5. september 2014 og 2.630.000 1. október sama ár.

Tveimur dögum fyrir afhendinguna upplýsti seljandinn um vatnsleka í þvottahúsi hússins. Smiður og pípulagningamaður á vegum tryggingafélags seljandans komu til að meta tjónið. Þeir opnuðu hurðarop á milli þvottahúss og eldhúss og kom mygla þá í ljós. Í framhaldinu fannst mygla undir korki á eldshúsgólfinu. Frekari mygla í eldhúsinu kom einnig í ljós.

„Seljandinn tilkynnir þegar við komum inn í húsið og erum að fá afhent að það hafi verið vatnsleki í þvottavélinni. Svo byrjar boltinn að rúlla,“ segir Steinunn. „Út frá því segir tryggingafélag seljanda að þetta komi sér ekki við og labbar í rauninni í burtu.“

Í dóminum kemur einnig fram að niðurstöður greininga sveppafræðings hjá Náttúrfræðistofnun Íslands hafi staðfest myglusvepp víðs vegar um fasteignina, en „einna helst í kringum eldhús og inntaksklefa“.

Seljandi hússins mótmælti því að hafa ekki veitt allar upplýsingar um ástand hússins sem honum hafi verið kunnugt um. Þá hafi upplýsingar í söluyfirliti verið réttar.

Seljandinn krafðist þess að þau greiddu síðustu tvær greiðslurnar en Steinunn og hennar maður sögðu að vegna „verulegra galla“ á fasteigninni hafi þeim verið heimilt að rifta kaupunum. Seljandinn skyldi jafnframt endurgreiða þeim kaupverðið sem þau höfðu þegar innt af hendi og greiða þeim skaðabætur.  

Héraðsdómur hafnaði riftunarkröfu Steinunnar og mannsins hennar og þurfa þau því að inna af hendi tvær síðustu greiðslurnar sem kaupsamningurinn kveður á um.

Málinu hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar Íslands.
Málinu hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar Íslands. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Engin ábyrgð seljanda

Steinunn er afar ósátt við dóm héraðsdóms, sem hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar Íslands. „Ábyrgð seljanda virðist ekki vera nein þegar upp er staðið, alls engin,“ segir hún og bætir við að sönnunarbyrðin sé algjörlega hjá kaupandanum. „Það er enginn sem heldur í hendurnar á kaupandanum. Það er enginn sjóður sem bakkar upp húseigendur eða kaupendur.“

Steinunn hefur hingað til ekkert viljað tjá sig um þessa þriggja ára baráttu í málinu. „Við höfum haldið þessu út af fyrir okkur af því að við trúðum á réttlætið,“ segir hún og telur niðurstöðu dómsins „óskiljanlega“.

Henni líst vel á hugmyndir sem Katrínar Júlíusdóttir, framkvæmdastjóra Samtaka fjármálafyrirtækja, frá fundinum í morgun um að eins konar „húsbók“ fylgi með hverju húsnæði sem selt er. Þannig geti nýir eigendur séð þær endurbætur sem hafi verið gerðar á húsnæðinu og allt það tjón sem hefur orðið. „Ég leyfi mér að kalla þetta sjúkraskýrslu fasteigna,“ segir hún.

Engu að síður segir Steinunn seinagang stjórnvalda í myglumálum sem þessum vera algjöran. Allt sé sett í nefndir en ekkert gerist þegar upp er staðið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert