15 hæfir í 15 embætti „ótrúleg tilviljun“

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra.
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra vísar því á bug að hún hafi brotið lög með því að fara ekki að fullu eftir tillögu dómnefndar um skipun dómara í Landsrétt.

„Ég vísa því á bug að ég hafi brotið lög. Ég fellst á það mat nefndarinnar að þeir fimmtán sem hún valdi séu meðal hæfustu umsækjenda en fellst ekki á það mat að það séu ekki fleiri í þeim hópi,“ segir Sigríður.

Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður, fyrrverandi formaður landskjörstjórnar og stjórnarmaður í Lögmannafélagi Íslands, sagði í bréfi sem hann ritaði forseta Alþingis í gær að Sigríður hafi farið á svig við lög með því að afla sér heimildar Alþingis með tillögu sína í stað þess að fara að fullu eftir tillögu dómnefndar.

Ráðherra er heimilt samkvæmt dómstólalögum að víkja frá tillögu dómnefndar um þann sem þar er metinn hæfastur í embætti ef Alþingi samþykkir tillögu ráðherra um heimild til að skipa í embætti aðra sem uppfylla að mati dómnefndar almenn hæfisskilyrði.

„Ótrúleg tilviljun“

„Í þeirri tillögu sem ég set fyrir Alþingi hef ég litið til marga sjónarmiða. Ég geri ekki athugasemdir við hvernig nefndin stóð að rannsókn málsins en ég kemst að þeirri niðurstöðu að ég sé ekki sammála mati nefndarinnar um vægi ýmissa einstakra matsþátta,“ bætir Sigríður við og segir að dómarareynsla hafi borið skarðan hlut frá borði í heildarmati dómnefndarinnar.

„Ég tel ekki tilefni fyrir nefndina að komast að þessari niðurstöðu. Það er ótrúleg tilviljun að það séu einungis fimmtán umsækjendur hæfir að mati nefndarinnar í þessi fimmtán embætti.“

Rökstuðningur að lokinni stjórnsýslumeðferð

Spurð hvort hún muni leggja fram rökstuðning fyrir því hvers vegna hún valdi ekki þá Ástráð Haraldsson, Eirík Jónsson, Jón Höskuldsson og Jóhannes Rúnar Jóhannesson þrátt fyrir tillögu dómnefndarinnar, segir hún að öllum umsækjendum sé heimilt að óska eftir rökstuðningi og þeim óskum skuli beint til ráðherra að lokinni stjórnsýslumeðferð. Lögin kveði aftur á móti ekki á um rökstuðning ráðherra til Alþingis. Þrátt fyrir það bendir hún á að hún hafi lagt fram rökstuðning fyrir tillögu sinni að skipun í fimmtán embætti við Landsrétt fyrir Alþingi í gær og birt opinberlega.

Reimar Pétursson, formaður Lögmannafélagsins.
Reimar Pétursson, formaður Lögmannafélagsins. mbl.is/Styrmir Kári

Enginn andmælaréttur

Varðandi það hvers vegna þeir fjórir sem Sigríður leggur til að fái ekki sæti í Landsrétti, þvert á tillögu nefndarinnar, hafi ekki kost á að andmæla tillögu hennar segir hún að andmælaréttur hefði aðeins átt við ef tillagan hefði grundvallast á nýjum gögnum eða upplýsingum. Slíkt hafi ekki verið um að ræða í þessu máli. Allir umsækjendur hafi fengið tækifæri til andmæla þegar öll gögn höfðu borist frá öllum umsækjendum við meðferð dómnefndar á málinu.

Dómur frá 2011 á ekki við

Ástráður sagði í bréfi sínu til forseta Alþingis að frávikin sem ráðherra gerir á tillögu dómnefndarinnar uppfylli á engan hátt kröfur sem gera verði varðandi skipan dómara og sem umboðsmaður Alþingis og dómstólar hafi lagt til grundvallar. Nefndi hann dæmi um þetta í dómi Hæstaréttar Íslands frá árinu 2011.

Sigríður segir dóminn ekki eiga við í málinu sem um ræðir núna. Hann hafi fallið í öðru lagaumhverfi og lotið að því að ráðherra hafi talið álit dómnefndar haldið göllum. Í málinu nú vegna Landsréttar telur hún ekki galla á störfum nefndarinnar heldur sé hún einfaldlega ósammála mati hennar. Hún nefnir að nefndin hafi upplýst vel um málið.

Ummæli formanns „með ólíkindum“

Spurð hvort ummæli Ástráðar hafi komið henni á óvart segist hún ekki hafa átt von á öðru en að þeir sem höfðu verið á fimmtán manna lista dómnefndarinnar en duttu út yrðu óánægðir með ákvörðunina. „En ummæli formanns Lögmannafélags Íslands koma mér hins vegar á óvart um að þessi tillaga muni mögulega rýra traust til Landsréttar. Það er með ólíkindum að formaðurinn telji að sú tillaga mín að setja í þennan hóp einstaklinga sem hafa áratugareynslu af dómstólum og farsæla, geti mögulega rýrt traust til Landréttar,“ segir Sigríður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert