20 prósent verða fyrir ofbeldi á meðgöngu

Alda Hrönn segir ofbeldi gagnvart þunguðum konum bæði hafa áhrif …
Alda Hrönn segir ofbeldi gagnvart þunguðum konum bæði hafa áhrif á móður og barn. mbl.is/Ófeigur

Fimmta hver kona, sem verður fyrir heimilisofbeldi, er einnig beitt ofbeldi þegar hún er barnshafandi, eða rúm 20 prósent, samkvæmt íslenskri rannsókn. Þetta kom fram í máli Öldu Hrannar Jóhannsdóttur, aðallögfræðings lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, á opnum fundi borgarstjórnar og ofbeldisvarnarnefndar Reykjavíkur sem nú stendur yfir í ráðhúsinu. Samkvæmt sambærilegri erlendri rannsókn sögðu 30 til 40 prósent kvenna í sem urðu fyrir heimilisofbeldi þegar þær voru barnshafandi að ofbeldið hefði hafist á meðgöngunni.

Alda Hrönn sagði áhrif ofbeldis á meðgöngu hafa margvísleg áhrif bæði á móður og barn. Áhrif á barnið geti meðal annars verið líffræðileg og haft áhrif á þroska þess, bæði í móðurkviði og síðar meir. Þá getur ofbeldið haft slæm áhrif á fæðinguna og orðið til þess að móðir á erfitt með að annast barn sitt eftir að það er fætt.

Vorið 2014 samþykkti borgarstjórn Reykjavíkur að fara í átak gegn heimilisofbeldi í samstarfi við Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, Kvennaathvarfið og Heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu. Síðan þá hefur heimilisofbeldismálum fjölgað verulega hjá lögreglu, en slík mál hafa verið um 650 á síðustu tveimur árum. Áður var um að ræða rúmlega 200 mál á ári, að meðaltali.

Ástæðurnar fyrir þessari miklu fjölgun segir Alda Hrönn meðal annars vera þær að málin voru rangt skráð áður, aukin umræða opni augu fólks, meiri þekking á ofbeldi og fólk þori nú frekar að stíga fram en áður. Ofbeldið er því ekki endilega að aukast.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert