Bræðrabörn dúxuðu bæði

Dagmar og Arnar Huginn eru eldklár frændsystkin.
Dagmar og Arnar Huginn eru eldklár frændsystkin. ljósmynd/Aðsend

Bræðrabörnin Arnar Huginn Ingason og Dagmar Ísleifsdóttir eru augljóslega með góðar gáfur í genunum, en þau dúxuðu hvort sinn skólann síðastliðna helgi. Arnar er dúx Borgarholtsskóla með meðaleinkunnina 9,32 og Dagmar dúx Fjölbrautaskólans í Breiðholti með meðaleinkunnina 9.

Arnar og Dagmar eru jafnaldrar, eða 20 ára gömul, bæði fædd árið 1997. Arnar er sonur Inga Brynjars Erlingssonar og Maríu Guðrúnar Þórisdóttur en Dagmar er dóttir Ísleifs Erlingssonar og Ragnheiðar Guðbjargar Jóhannesdóttur. Fjölskyldurnar eru vitanlega mjög stoltar og ánægðar með dúxana sína tvo.

Kom þeim mismikið á óvart

„Þetta kom mér mjög á óvart,“ segir Dagmar, spurð hvort hún hafi búist við þessum góða árangri. Var hún hæst 135 nemenda sem útskrifuðust úr FB þetta árið, en hún útskrifaðist af náttúrufræðibraut. Dagmar segir það einnig hafa komið fjölskyldu sinni á óvart þar sem hún hafði sagt þeim að búast ekki við neinu.

Arnari var ekki jafnbrugðið og frænku hans. Hann segist ekki hafa búist við því að dúxa, en það hafi þó ekki komið mikið á óvart. „Ég var ekkert svakalega hissa,“ segir hann, og bætir við að hann hafi útskrifast með 9,25 úr grunnskóla og alltaf gengið vel í námi. Var hann hæstur þeirra 160 nemenda sem útskrifuðust úr Borgarholtsskóla. Útskrifaðist hann af viðskipta- og hagfræðibraut og einnig af afreksíþróttasviði – handbolta. 

Dagmar útskrifaðist með meðaleinkunnina 9 úr Fjölbrautaskólanum í Breiðholti.
Dagmar útskrifaðist með meðaleinkunnina 9 úr Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. ljósmynd/Aðsend

Dagmar hélt útskriftarveislu á laugardag en Arnar hélt sína veislu á sunnudag. Þau gátu því mætt í veislu hvort annars og óskað hvort öðru til hamingju með árangurinn. Þau vissu þó ekki af góðum árangri hvort annars fyrr en þau fréttu að þau hefðu bæði dúxað.

Nóg að gera utan skólans

En hver er galdurinn að svona góðum námsárangri?

Dagmar segist aldrei hafa þurft að hafa mikið fyrir námi. Hún fylgist vel með í tímum og skili verkefnum en utan skólans læri hún lítið sem ekkert. „Ég mæti í tíma og hlusta þar og nýti svo tímann eftir skóla í annað,“ segir hún. Þá mætir Dagmar í ræktina alla daga vikunnar og ver svo tímanum með fjölskyldu, vinum og kærasta sínum.

„Ég er lítið að læra eftir skóla nema það sé stórt próf fram undan,“ segir Dagmar og blaðamaður spyr því hvort hún hafi þá ekki lært mikið fyrir lokaprófin í vor. „Nei ekki svo mikið. Ég var búin að skila öllum verkefnum og vinna vel yfir önnina svo ég þurfti bara að rifja upp.“

Er þetta ekki eiginleiki sem margir öfunda þig af? „Jú, ætli það ekki,“ segir hún hógvær.

Arnar Huginn útskrifaðist með meðaleinkunnina 9,32 frá Borgarholtsskóla.
Arnar Huginn útskrifaðist með meðaleinkunnina 9,32 frá Borgarholtsskóla. ljósmynd/Aðsend

Arnar segir gott skipulag vera mjög mikilvægt. „Og auðvitað að mæta í tíma. Maður nær engum árangri ef maður mætir aldrei í tíma,“ segir hann.

Arnar hefur einnig í nógu að snúast utan skóla en hann æfir handbolta með Víkingi. Hann segir lífið því yfirleitt snúast um skóla og æfingar. Hann segir handboltann þó aldrei hafa staðið í vegi góðs námsárangurs.

Ætla bæði í Háskóla Íslands

Hvað tekur svo við næst hjá frændsystkinunum?

„Ég hugsa að ég fari í lyfjafræði í HÍ í haust,“ segir Dagmar. „Ég fékk svo mikinn áhuga á efnafræði þegar ég byrjaði í menntaskóla svo lyfjafræði er það sem ég hef hugsað mér að fara í.“

Dagmar kveðst ekki ætla að taka sér ársfrí eins og margir gera, þar sem hún er viss um hvað hún vill læra. „Á meðan mér gengur svona vel ætla ég bara að halda áfram,“ segir hún.

Arnar kveðst einnig ætla í Háskóla Íslands í haust en er ekki búinn að ákveða hvað hann ætlar að læra. „En ég er að hugsa um verkfræði,“ segir hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert