Leiguverð hækkað um 73,8% frá 2011

Leiguverð hefur hækkað um 73,8% á höfuðborgarsvæðinu að nafnverði síðan …
Leiguverð hefur hækkað um 73,8% á höfuðborgarsvæðinu að nafnverði síðan 2011. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Leiguverð íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um tæplega 74% frá því í janúar 2011. Þetta kemur fram í tölum frá Þjóðskrá Íslands og er þróun leiguvísitölunnar sýnd hér að neðan. Vísitölunni var ýtt úr vör 2011 og skýrir það viðmiðunartímabilið.

Yngvi Harðarson, hagfræðingur og framkvæmdastjóri hjá Analytica, bendir á að verð á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hafi hækkað enn meira en leiguverð á þessu tímabili.

Þannig hafi fasteignaverð hækkað um 93,5% að meðaltali frá janúar 2011 til apríl 2017. Þetta þýðir að fermetraverð íbúðar sem nú er 575.800 krónur var í janúar 2011 um 297.500 krónur. Þessar tölur vísa til nafnverðs. Raunverð er fengið út með því að taka tillit til verðlagsbreytinga.

Mynd/mbl.is

Sé fært til verðlags nú í apríl miðað við vísitölu neysluverðs svarar fermetraverðið í janúar 2011 til tæplega 362.000 króna. Á núvirði er hækkunin frá janúar 2011 til apríl 2017, úr 362.000 krónum í 575.800 krónur, því 59%.

Meiri hækkun í pípunum

Yngvi segir að í ljósi þessarar þróunar – að fasteignaverð hafi hækkað meira en leiguverð á höfuðborgarsvæðinu – megi reikna með enn frekari hækkun leiguverðs. „Þetta segir manni að það er undirliggjandi þrýstingur til enn frekari hækkunar leiguverðs,“ segir Yngvi.

Hann rökstyður það með því að benda á að fasteignaeigendur geti valið um að taka eignir úr leigu og selja þær á góðu verði, eða að nýta sér eftirspurnina og leigja þær áfram á góðu verði. Þeir sem kaupi eignir þurfi að leigja íbúðirnar út á háu verði til að fá viðunandi ávöxtun.

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs hjá Samtökum atvinnulífsins, segir útlit fyrir áframhaldandi verðhækkanir á húsnæðismarkaði á höfuðborgarsvæðinu.

Mynd/mbl.is

Hún segir að hækkanir á íslenskum fasteignamarkaði skýrist fyrst og fremst af auknum kaupmætti og framboðsskorti. Það sé ólíkt stöðunni á þensluárunum fyrir hrun, þegar aukin skuldsetning dreif áfram hækkun fasteignaverðs.

„Ný útlán eru lítið að aukast. Heimili hafa nýtt uppsveifluna í að greiða niður skuldir. Verðhækkanir eru því drifnar áfram af auknum kaupmætti. Það ýtir undir aukna eftirspurn en á sama tíma hefur myndast framboðsskortur. Það hefur í mörg ár verið varað við þeirri stöðu sem nú er uppi. Það varð algert frost á byggingarmarkaðnum eftir hrun og lítið byggt af nýjum eignum. Nú er verið að bregðast við þeim vanda sem upp er kominn en það er of lítið og of seint. Það hefur safnast upp mikil þörf.“

Ásdís segir útlit fyrir frekari hækkun fasteignaverðs. Hagvaxtarhorfur séu góðar, sem muni styðja við eftirspurn. Þrátt fyrir áætlanir um aukið framboð þá muni áfram vera framboðsskortur á næstu árum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Loka