Sjór flæðir inn í Rússatogara í Njarðvíkurhöfn

Togarinn Orlik hefur legið við bryggju í Njarðvík í nokkur …
Togarinn Orlik hefur legið við bryggju í Njarðvík í nokkur ár. Til stóð að senda hann til Evrópu og láta rífa í brotajárn. Víkurfréttir/Hilmar Bragi

Verið er að dæla sjó úr rússneskum togara, Orlik, í Njarðvíkurhöfn að því er greint er frá á vef Víkurfrétta nú á tólfta tímanum. Óskað var eftir aðstoð frá Köfunarþjónustu Sigurðar í kvöld þegar ljóst var að talsverður sjór var kominn í skipið og það var tekið að halla þar sem það er bundið við bryggju.

Orlik hefur legið við bryggju í Njarðvíkurhöfn í nokkur ár. Skipið var þó dregið til Hafnarfjarðar á dögunum þar sem það fór í slipp þar sem átti að kanna ástand á botni þess og sjóða fyrir op á skrokki skipsins. Skipið var síðan dregið aftur til Njarðvíkurhafnar á föstudaginn í síðustu viku, en til stendur að senda það á næstu dögum til Evrópu þar sem það verður rifið í brotajárn.

Víkurfréttir segja það því hafa komið mönnum töluvert á óvart að skipið hafi tekið að fyllast af sjó í höfninni í kvöld, sérstaklega í ljósi þeirra fyrirbyggjandi aðgerða sem búið var að ráðast í.

mbl.is