Ákvörðun ráðherra verði rannsökuð

Jón Þór Ólafsson pírati.
Jón Þór Ólafsson pírati. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Þetta er gríðarleg vantraustsyfirlýsing á dómskerfi landsins,“ sagði Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, á Alþingi í umræðu um skipun dómara í Landsrétti.

Þar átti Jón Þór við ákvörðun dómsmálaráðherra um að fara ekki að fullu eftir tillögu hæfisnefndar vegna valsins á dómurum.

Jón Þór fór fram á að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd rannsaki málið og kalli ráðherra fyrir opinn fund þar sem ákvörðun hennar verði rannsökuð ofan í kjölinn.

Hann sagði í andsvari sínu við ræðu Birgis Ármannssonar, þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins, að rökstuðningur ráðherra væri ófullnægjandi og bætti við að ráðherra hafi verið margsaga og missaga um ástæðurnar fyrir ákvörðun sinni.

„Þetta er mjög ófaglegt ferli sem þarf að rannsaka.“

Birgir Ármannsson svaraði þannig: „Ég tel að gífuryrði háttvirts þingmanns séu fullkomlega tilefnislaus í þessu sambandi.“

Hann bætti við: „Það er algjörlega ótvírætt að ráðherra hefur rökstutt tillögu sína á grundvelli málefnalegra sjónarmiða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert