Ákvörðun Trump „mikil ógn við Ísland“

Árni segir Trump einfaldlega vera „síkópata“.
Árni segir Trump einfaldlega vera „síkópata“. AFP

„Þetta er mikil ógn við Ísland. Súrnun sjávar er mjög hröð hérna fyrir norðan land og nú eykst hættan gagnvart fiskimiðum landsins. Ég get ekki ímyndað mér annað en að útvegsmenn bregðist harkalega við.“ Þetta segir Árni Finnsson, formaður náttúruverndarsamtaka Íslands, um það hvaða áhrif ákvörðun Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, um að draga Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu, getur haft á Ísland.

Ákvörðun Trump kom Árna ekki á óvart, frekar en öðrum, og segir hann að skaðinn sé nú þegar skeður, enda hafi það legið í loftinu mánuðum saman að þetta yrði niðurstaðan. Hann er engu að síður ánægður með viðbrögð annarra ríkja. Það gefur honum von.

„Mér finnst viðbrögðin hafa verið eins góð og maður gat vonað. Indland, Kína, ríki Evrópusambandsins og Rússland segjast ætla að standa við samninginn. Það er uppörvandi.  Svo eru fylki innan Bandaríkjanna, eins og Kalifornía og New York, eignlega öll norðaustur fylkin og öll vesturfylkin, þar á meðal Oregon og Washingston, sem ætla fylgja áfram sinni stefnu. Þá er samvinna á milli Kaliforníu og Kanada, öfugt við það sem var þegar George Bush dró Bandaríkin út úr Kyoto-bókuninni árið 2001.“

Ábyrgðarlaus gagnvart börnum sínum

Árni segir áðurnefnd ríki sýna ábyrgð. Eitthvað sem Trump geri ekki. „Hann er algjörlega ábyrgðarlaus gagnvart sjálfum sér, börnunum sínum, barnabörnum og framtíðinni. Hann er bara „síkópati““.

Árni Finnsson segir Íslendinga verða að fara að sópa fyrir …
Árni Finnsson segir Íslendinga verða að fara að sópa fyrir framan húsið. Aðsend mynd

Aðspurður hvort það breyti einhverju ef Bandaríkjamenn ganga aftur inn í Parísarsamkomulagið á sínum eigin forsendum, með skilmálum sem Trump getur sætt sig við fyrir bandarísku þjóðina, líkt og hann segist ætla að gera, segist Árni efast um það.

„Hann þykist ætla að reyna að ná samkomulagi en hann nær ekki betra samkomulagi en þetta. Bandaríkin fóru mjög vel út úr Parísarsamkomulaginu. Það eina sem er lagalega bindandi í þessu samkomulagi er að ríkjum ber að upplýsa um það sem þau eru að gera og það sem þau hafa sagst ætla að gera.“

Íslendingar verða að fara að sópa

Árni segir Íslendinga líka verða að fara að hugsa sinn gang ætlum við að virða samkomulagið á næstu árum. „Þessi yfirlýsing sem var gerð með Parísarsamkomulaginu árið 2015 dugir nú ekki nema til hálfs, þannig það þarf að herða mjög á ólinni. Það á að hefja endurskoðun á markmiðum ríkjanna árið 2018 og ég held að Ísland verði aðeins að spretta úr spori. Við þurfum að sýna að við séum búin að sópa fyrir framan húsið áður en við förum að sveifla sópnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert