Bíll með hjólhýsi fauk út af veginum

Slysið varð á milli Kirkjubæjarklausturs og Hafnar í Hornafirði.
Slysið varð á milli Kirkjubæjarklausturs og Hafnar í Hornafirði. Mats Wibe Lund

Rétt fyrir klukkan hálf eitt í dag fékk lögreglan á Suðurlandi tilkynningu um að bíll með hjólhýsi hefði fokið út af veginum við Öldukvísl, á milli Kirkjubæjarklausturs og Hafnar í Hornafirði.

Lögreglan getur ekki gefið frekari upplýsingar um alvarleika slyssins að svo stöddu, en farþegar hafa verið færðir undir læknishendur. Lögreglumenn eru enn á vettvangi en vegurinn er engu að síður opinn.

Mjög hvasst er á þessu svæði og eru verstu hviður um 35 til 40 metrar á sekúndu á Suðausturlandi og undir Eyjaföllum. Vegagerðin beinir þeim tilmælum til vegfarenda sem ferðast á húsbílum, með kerrur og ferðavagna að hafa varann á. Búist er við að draga fari úr veðurhamnum uppúr klukkan þrjú í dag.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi hafa ekki orðið fleiri útköll vegna veðurs á svæðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert