Smyglararnir selja fólki von

Frá Olive Grove þar sem flóttamenn bíða þess að komast …
Frá Olive Grove þar sem flóttamenn bíða þess að komast inn í Moria-flóttamannabúðirnar. mbl.is/Gúna

Þrátt fyrir að hægt hafi á flóttamannastraumnum til Evrópu hafa yfir 50 þúsund manns komið sjóleiðina til Evrópu það sem af er ári. Flestir koma til Ítalíu en nokkur þúsund hafa komið til Grikklands. Vegna nálægðar grísku eyjarinnar Lesbos við Tyrkland er hún fyrsti áfangastaður margra þeirra.

Við komuna í land er flóttafólki gert að fara í Moria-flóttamannabúðirnar, en alls dvelja þar tæplega tvö þúsund manns samkvæmt upplýsingum sem Flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna, UNHCR, fékk fyrir mbl.is hjá grísku lögreglunni.

Rými er fyrir 1.500 manns í búðunum, sem áður hýstu fanga. Aftur á móti eru nánast aldrei svo fáir, þar sem oft myndast flöskuháls í úrræðum fyrir flóttafólk á Lesbos þegar fáir fá úrlausn sinna mála en sífellt fleiri flóttamenn koma til eyjarinnar.

AFP

Fátt sem minnir á ólífutrjálund

Fyrir utan Moria-búðirnar eru tjaldbúðir sem minna helst á útihátíð að morgni frídags verslunarmanna. Þar búa alltaf nokkrir tugir eða nokkur hundruð flóttamenn sem bíða þess að komast inn í Moria-búðirnar. Tjaldbúðirnar nefnast Olive Grove en fyrir rúmu ári gengu þær undir heitinu Afghan Hill.

Eitt er víst að fátt minnti þar a ólífutrjálund þegar blaðamaður mbl.is var þar á ferð nýverið. Rusl úti um allt og ekkert fyrir íbúana að gera nema að ráfa um og reyna að drepa tímann.

Þrátt fyrir að veðrið sé gott á Lesbos yfir sumarið snjóaði þar í vetur og frusu einhverjir íbúanna í Moria og Olive Hill í hel. Nokkrir létust vegna gaseitrunar í tjöldum sínum og í kjölfarið var hluti íbúanna í Moria fluttur um borð í herskip í höfninni í Mytilene.

Samkvæmt upplýsingum frá samtökunum Læknar án landamæra hefur sjálfsvígstilraunum og sjálfsskaðatilfellum fjölgað mjög í búðunum, þar sem fjölmargir íbúanna glíma við sálræna kvilla, bæði vegna þess sem þeir hafa upplifað í heimalandinu og gengið í gegnum á lífshættulegum flótta yfir hafið. Í Moria og víðar búa þeir við þröngan kost í tjaldbúðum mánuðum saman og vita ekkert hvað framtíðin ber í skauti sér.

Frá nokkrum dögum upp í ár

Að sögn Theodoros Alexellis, sem starfar fyrir UNHCR á Lesbos, er mjög misjafnt hversu lengi flóttafólk þarf að dvelja í Moria. Þar skiptir miklu hver staða viðkomandi er, fjölskylduhagir og hversu berskjaldað fólk er. Grikkland er eins og Ísland aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna frá 1951. Þeir sem sæta ofsóknum í heimalandi sínu eða eiga þar á hættu dauðarefsingu, pyndingar eða ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eiga rétt á hæli sem flóttamenn.

Aftur á móti falla alls ekki allir þeir sem flýja land undir þessa skilgreiningu og þeir fá yfirleitt aldrei inni í öðrum búðum en Moria á Lesbos. Þar dvelja þeir þangað til málsmeðferð þeirra lýkur og eru yfirleitt sendir aftur heim eða til Tyrklands.

„Með öðrum orðum þýðir þetta að fólk er í Moria allt frá fáum dögum upp í ár,“ segir Alexellis.“

Líkt og í flestum flóttamannabúðum á Lesbos er bannað að taka myndir og jafnvel á svæðinu í kringum Moria fylgjast lögreglumenn og hermenn með hverri hreyfingu fólks sem á leið um svæðið.

AFP

Mjög erfitt er að fá heimild fyrir blaðamenn til að fara inn í Moria-búðirnar en blaðamaður Morgunblaðsins fékk aftur á móti að heimsækja Kara Tepe-búðirnar.

Ekki mátti ræða við flóttafólkið né heldur taka myndir þar.

Hluti þeirra sem dvelja í Moria er börn en að sögn Antonios Zeimpekis, framkvæmdastjóra Iliahtida-mannúðarsamtakanna (NGO) sem reka átta heimili fyrir börn og fjölskyldur á flótta á Lesbos, er allt reynt til þess að koma þeim þaðan sem fyrst. Þegar hlýnar í veðri fjölgar flóttafólki sem kemur yfir hafið til Lesbos frá Tyrklandi sem þýðir aðeins eitt – börnin þurfa, líkt og fullorðnir, að dvelja lengur í Moria en annars væri.

Zeimpekis segir að það sé ekki nóg með að smyglararnir nýti sér neyð fólks og hafi af þeim nánast aleiguna heldur ljúgi þeir blákalt að fólki. „Þeir selja fólki von. Fólk kemur að landi hér á Lesbos fullt vonar um betri framtíð. Þess bíði fæði og húsnæði og flutningur til meginlandsins. Vonbrigðin eru mikil þegar í ljós kemur að fólk hefur keypt væntingar sem ekki standast þegar á hólminn er komið,“ segir Zeibekis.

Skjótfenginn gróði smyglara

Þórunn Ólafsdóttir, sem starfaði sem sjálfboðaliði á Lesbos 2015 og 2016, segir að smyglurunum sé nákvæmlega sama um afdrif þeirra sem kaupi far með þeim yfir Eyjahafið. Skjótfenginn gróði sé þeim efst í huga, sama hvaða brögðum sé beitt til þess að ná því markmiði. Enda mikið í húfi. Góður dagur getur skilað mörgum milljónum í vasa þeirra. Smygl á fólki er því oft miklu ábatasamara en smygl á eiturlyfjum, en Europol áætlar að veltan nemi tugum milljarða evra á ári.

Mannúðarsamtök eins og Amnesty International hafa gagnrýnt aðbúnað flóttafólks í Grikklandi harðlega. Margir þurfi að búa í tjöldum án rennandi vatns og rafmagns og í Kara Tepe-búðunum, sem þykja hátíð miðað við Moria, er snyrtiaðstaða íbúa bæði salerni og sturtur í gámastæðu og oft erfitt fyrir börn að komast í tæka tíð þegar mikið liggur við.

Í kringum Moria eru háar gaddavírsgirðingar og mikil öryggisgæsla og þangað fer enginn inn eða út án heimildar. Sennilega er erfiðara að brjótast þangað inn heldur en út úr íslensku fangelsi.

Frans páfi er einn þeirra sem hafa harðlega gagnrýnt aðbúnað flóttafólks og við messu fyrir mánuði rifjaði hann upp heimsókn sína í Moria-flóttamannabúðirnar og samtal við mann í búðunum sem var þar ásamt eiginkonu og þremur börnum.

„Ég veit ekki hvað varð um hann. Hvort honum tókst að komast frá útrýmingarbúðunum á einhvern annan stað,“ sagði páfi, en athygli hefur vakið að hann líkir þeirri aðstöðu sem Evrópa býður flóttafólki upp á við útrýmingarbúðir nasista í seinni heimsstyrjöldinni.

Nour og Riad eru sýrlenskir flóttamenn sem páfi tók undir …
Nour og Riad eru sýrlenskir flóttamenn sem páfi tók undir sinn verndarvæng. AFP

Frans páfi segir að ekki sé nóg með að við eignumst ekki lengur börn heldur lokum við dyrum okkar fyrir flóttafólki. Á sama tíma og Grikkir og Ítalir taki á móti fólki sem leggi á sig lífshættulegt ferðalag sé með fjölþjóðlegu samkomulagi lokað á að flóttafólk geti haldið för sinni áfram inn í Evrópu. Alþjóðlegt samkomulag hafi meira gildi í okkar huga en mannréttindi, að sögn páfa.

Yfir tvær milljónir Sýrlendinga hafa annaðhvort týnt lífi eða særst á þeim sex árum sem liðin eru frá upphafi stríðsins. Af þeim hafa 24 þúsund börn dáið. Einn af hverjum fjórum skólum landsins er rústir einar og yfir helmingur sjúkrahúsa í Sýrlandi er óstarfhæfur. Vegna stríðsins hefur matvælaverð hækkað um 900% og um helmingur Sýrlendinga hefur neyðst til þess að yfirgefa heimili sín.

„Ef þú ert heppinn hafðir þú tíma til að pakka ofan í eina tösku. En ef ekki hentir þú einfaldlega öllu frá þér og hljópst eins hratt og þú gast,“ segir einn þeirra fjölmörgu sem hafa neyðst til þess að yfirgefa Sýrland.

Árið 2016 voru fimm milljónir Sýrlendinga landflótta. Flestir þeirra eru flóttamenn í nágrannaríkjunum en um ein milljón er í Evrópu. Í rúmt ár hefur Evrópa hins vegar nánast lokað dyrunum fyrir þeim, þannig að stór hluti þeirra sem hafa flúið land á þeim tíma býr við slæman kost í Tyrklandi.

Erfiðar aðstæður, stríð og hörmungar, eru ekki bara bundnar við Sýrland, Írak og Afganistan því alls hafa yfir 65 milljónir jarðarbúa neyðst til þess að flýja heimili sín vegna stríðs og annarra hörmunga. Aldrei áður hafa jafn margir verið landflótta og um þessar mundir.

Hér má finna athyglisverða umfjöllun UNHCR um Sýrland

Kveikt var í búðum flóttafólks á Chios.
Kveikt var í búðum flóttafólks á Chios. AFP

Þrátt fyrir að íbúar Lesbos hafi almennt tekið vel á móti flóttafólkinu sem þangað hefur leitað er svo ekki með alla. En staðan er betri þar en á grísku eyjunni Chios.

Einn af hverjum þremur flóttamönnum sem hafa komið til Chios hefur orðið vitni að sjálfsvígi í flóttamannabúðum á eyjunni.

Yfir 70% þeirra hafa glímt við sálræna kvilla frá komunni þangað og innan við þriðjungur hefur fengið læknisaðstoð, samkvæmt nýrri skýrslu Refugee Rights Data Project (RRDP).

85% flóttamannanna telja sig aldrei örugga á Chios og tæplega fjórðungur hefur orðið fyrir ofbeldi af hálfu lögreglu. Að sögn margra kemur lögreglan þar fram við þá eins og dýr.

Um 22% flóttamanna á Chios hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu heimamanna. Enn fleiri, eða 32%, segjast hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu annarra flóttamanna.

Yfirfullar flóttamannabúðir þar sem fólk er af ólíkum uppruna býr þröngt. Einkum eru það konur og börn sem eiga á hættu að verða fórnarlömb ofbeldi, samkvæmt upplýsingum frá UNICEF.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert