Fasteignaverð hækkar um 13,8%

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Heildarmat fasteigna á Íslandi hækkar um 13,8% frá yfirstandandi ári og verður 7.288 milljarðar króna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Þjóðskrá Íslands en fasteignamat hennar fyrir árið 2018 er birt í dag. Fasteignamatið hækkar á 98,3% eigna. 

Fasteignamat íbúðarhúsnæðis á landinu öllu hækkar um 15,5% samanlagt en 9,1% í tilfelli atvinnuhúsnæðis. Hækkun fasteignamats atvinnuhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu verður 10,6% en 5,7% á landsbyggðinni. Matsverð íbúða í sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkar meira en íbúðir í fjölbýli. Húsavík sker sig úr öðrum bæjum en þar verður hækkunin 42,2%.

Heildarfasteignamat á höfuðborgarsvæðinu hækkar um 14,5% segir í tilkynningunni, um 12,5% á Suðurnesjum, um 14% á Vesturlandi, 8,6% á Vestfjörðum, 12,2% á Norðurlandi vestra, 12,4% á Norðurlandi eystra, 6,4% á Austurlandi og um 12,9% á Suðurlandi.

Þá segir að meðalhækkun á mati íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu verði 16,5%. Svipaða hækkun megi sjá í nágrannasveitarfélögum. Þannig hækki Reykjanesbær um 18,3-18,6%, Grindavík um 19,1%, Akranes um 18,8%, Hveragerði um 17,9% og Selfoss um 17,5%.  

Nýtt fasteignamat tekur gildi 31. desember á þessu ári og gildir fyrir árið 2018.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert