Jóhannes Rúnar íhugar að leita réttar síns

Húsakynni Landsréttar. Að minnsta kosti einn þeirra fjögurra, sem hæfisnefnd …
Húsakynni Landsréttar. Að minnsta kosti einn þeirra fjögurra, sem hæfisnefnd mælti með og ráðherra skipti út, íhugar að leita réttar síns. mbl.is/Hjörtur

Jóhannes Rúnar Jóhannsson, einn þeirra umsækjenda um stöðu dómara við Landsrétt sem Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra skipti út, íhugar að leita réttar síns vegna ákvörðunar ráðherra.

„Ég mun fara yfir málið,“ sagði Jóhannes Rúnar í samtali við mbl.is. Spurður hvað hann taki sér langan tíma að skoða málið svaraði hann því til að hann þurfi augljóslega að afla sér gagna áður en lengra sé haldið, en að hann muni íhuga að leita réttar síns.

Alþingi samþykkti í gær tillögu dómsmálaráðherra að skipta út fjórum af þeim 15 sem hæfisnefnd taldi hæfasta í starfið fyrir fjóra aðra úr hópi umsækjenda. 

Ástráður Haraldsson, sem ráðherra skipti einnig út, kvaðst ekki vilja tjá sig um málið við fjölmiðla og ekki náðist í þá Eirík Jónsson og Jón Höskuldsson, sem hæfisnefnd hafði einnig metið í hópi þeirra 15 hæfustu til að gegna dómarastarfinu, en sem ráðherra skipti út. Jón sendi hins vegar stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd andmælabréf þar sem hann sagði ráðherra hafa farið á skjön við sín­ar eig­in rök­semd­ar­færsl­ur við skip­an dóm­ara.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert