Létu borgina vita af herþotunni

Herþotan var til sýnis á Reykjavíkurflugvelli í dag.
Herþotan var til sýnis á Reykjavíkurflugvelli í dag. mbl.is/Golli

„Borgin var látin vita að þetta stæði til, að það væri þessi flugsýning,“ segir Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélags Íslands, í samtali við mbl.is. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, segist ekki kann­ast við að hafa gefið leyfi fyr­ir lág­flugi kanadískrar F18 herflug­vél­ar yfir miðborg­inni í morgun en þotan er hér á landi í tengslum við flugsýningu sem haldin var á Reykjavíkurflugvelli í dag.

Spurður hvort félaginu hafi borist einhverjar athugasemdir frá borginni eftir að tilkynnt var um hvað til stæði segir Matthías svo ekki hafa verið. „Það hefur legið lengi fyrir og hefur komið fram í fjölmiðlum að þessi vél myndi fljúga yfir,“ segir Matthías. Honum þyki þó miður ef leyfismálum hafi ekki verið rétt háttað. Ummæli borgarstjóra komi honum nokkuð á óvart.

„Okkur þykir bara leitt ef að við höfum valdið honum ónæði og ef að eitthvað hefur vantað uppá, einhver leyfismál eða þess háttar, þá þykir okkur bara mjög leitt ef að það hefur verið með þeim hætti,“ segir Matthías.

Hann segir sýninguna hafa gengið ákaflega vel, margt hafi verið um manninn og gleðin við völd. „Það voru mörg þúsund manns sem komu og skemmtu sér og höfðu gaman af því að sjá þessa vél fljúga yfir, yfir höfuðborgarsvæðinu, þannig að það var bara gleði sem ríkti,“ segir Matthías, en hann telur að hátt í 10 þúsund manns hafi lagt leið sína á svæðið.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert