Ástráður stefnir ríkinu

Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður.
Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður. mbl.is/Styrmir Kári

Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður hefur ákveðið að stefna ríkinu vegna ákvörðunar Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra að skipa hann ekki dómara við Landsrétt. Hann telur að ráðherra hafi meðal annars brotið gegn reglum stjórnsýsluréttarins og jafnréttislögum við skipan dómara.

Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

„Sá sem lendir í stöðu eins og þessari og þarf að takast á við stjórnvöld út af því, gerir það ekki að gamni sínu,“ segir Ástráður í blaðinu. En hann telur ráðherra hafa brotið gegn meginreglum stjórnsýsluréttarins og gegn ákvæðum jafnréttislaga.

„Það er ekki reynslan almennt að menn komi neitt sérlega vel út úr því. Jafnvel þó að menn hafi unnið málin þá hefur svona málarekstur ekki endilega verið þeim til mikils vegsauka. Ég hins vegar lít svo á að mér beri skylda til að standa upp og leita réttar míns í þessu máli og það verður bara að hafa það þótt það kunni að hafa einhverjar neikvæðar afleiðingar fyrir mig,“ segir Ástráður í samtali við blaðið.

mbl.is